145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er fínt að fá þessa umræðu upp á yfirborðið. Ég vek athygli á því að það er akkúrat á svona tímum þegar fólk fyllist ótta út af einhverri ógn sem er nálægt sem borgararéttindi eru tekin af án þess að hægt sé að mæla gegn því af því að mikið er spilað inn í óttann. Gleymum því ekki að daglega deyr fjöldi manns til dæmis í Bandaríkjunum út af skotvopnaeign þar í landi. Gleymum því ekki að daglega deyr fjöldi fólks úr hungri. Gleymum því ekki að daglega er ógn í tilverunni en það þýðir ekki að við eigum að beygja okkur undir þann ótta, þrátt fyrir mjög viðamiklar forvirkar rannsóknarheimildir erlendis, til dæmis í París.

Í Frakklandi var ákveðið að auka enn á þær heimildir eftir voðaverkin tengd Charlie Hebdo. Í maí voru samþykkt skelfileg lög sem voru mikil inngrip í friðhelgi einkalífs almennra borgara. Það var ekki nægilegt til að hægt yrði að grípa þá aðila sem skipulögðu voðaverkin í París, einfaldlega vegna þess að þeir sem hyggja á voðaverk kunna leiðir sem fara fram hjá lögreglunni, alveg sama hvaða heimildir lögreglan hefur. Þess vegna er mjög mikilvægt að við áttum okkur á þeim kröfum sem maður heyrir núna, og voru nákvæmlega sömu kröfur og voru notaðar gegn Hells Angels, um víðtækar heimildir fyrir forvirkum rannsóknum, sem og hlerunum á víðtækan hátt. Við skulum ekki tapa okkur í óttanum. Styrkjum heldur almenna löggæslu. Ég er mjög sammála þeim ræðumönnum (Forseti hringir.) sem hafa talað í þá veru, en gleymum okkur ekki og týnum okkur ekki í einhverjum ótta sem mun fjara út innan tíðar.