145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:40]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég vil sérstaklega þakka fyrir þær áherslur sem mátti greina í orðum hæstv. ráðherra um starfsemi lögreglunnar og þann skilning sem hún hefur á málaflokknum. Ég vil líka þakka fyrir umræðuna sem hefur verið mestan part hófstillt og málefnaleg.

Lögreglumenn á Íslandi hafa undanfarið unnið vanþakklátt verk við mjög erfiðar aðstæður. Við höfum sett traust okkar á þá. Nú setja lögreglumenn á Íslandi traust sitt á okkur sem erum meðal annars hér inni. Við þurfum að standa undir því trausti og styðja við baráttu þeirra gegn heimilisofbeldi, gegn kynferðisafbrotum og öðrum ofbeldisbrotum. Við þurfum að standa við bakið á þeim til að þeir séu allir þannig búnir að ekki þurfi að senda þá berhenta eða með kylfustaut og mace-brúsa einan að vopni gegn fólki sem er vitfirrt vegna vímuefna og jafnvel vopnað eggvopnum. Við þurfum að búa svo um hnútana að lögreglan hafi yfir nauðsynlegum búnaði að ráða. Það þýðir ekki að við séum að ala á ótta eða eigum að ala á ótta en við eigum heldur ekki að loka augunum fyrir þeim ógnum sem að okkur steðja. Það væri firra. Við eigum hins vegar að mæta þeim ógnum með því að búa lögregluna í landinu nauðsynlegum búnaði, þjálfa hana nauðsynlega, mennta hana nauðsynlega og sjá til þess að hún hafi ætíð þau verkfæri og þau starfsskilyrði sem stuðla að því að lögreglan geti verið það sem var í mínu ungdæmi kallað lögregluþjónar. Ég veit það vegna þess að ég hef unnið með lögreglumönnum mjög lengi, hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi, að lögreglumenn á Íslandi eru enn í hjarta sínu lögregluþjónar.