145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[16:00]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það var auðvitað mjög umdeilt að málið var tekið úr nefndinni, það vita allir í þinginu, og það var mjög breytt utanríkismálanefnd sem tók á málinu frá því síðasta vor. En látum það liggja á milli hluta.

Nokkrum spurningum er enn ósvarað, alla vega af hálfu ráðherrans sem hefur ekki verið viðstaddur umræðuna. Það eru spurningar eins og hvort hann hafi verið óánægður með Þróunarsamvinnustofnun, hvort hann vilji ekki fá gagnrýni frá faglegum framkvæmdaraðilum, hvort hann ætli að breyta þróunaraðstoð Íslands, hvernig, hvers vegna og með hvaða hætti og hvenær? Ætlar hann að fækka löndum sem við erum að reyna að aðstoða? Ætlar hann að leggja meiri áherslu á jarðvarmavirkjanir erlendis? Á þróunarfjármagn Íslands að fara til Orkustofnunar? Eru engin önnur mál sem hann ætlar að leggja fram? Er þetta hans eina erindi í stjórnmálum? Flutti hæstv. ráðherra frá Sauðárkróki til Reykjavíkur til að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður? Við í þinginu þyrftum að fá svör við slíkum spurningum og það er fullkomlega eðlilegt að stjórnarandstaðan geri mál úr því að hann sé ekki viðstaddur.