145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Ég nefndi það áðan að mér finnst menn gleyma móttakanda þeirra verkefna sem Þróunarsamvinnustofnun sinnir. Það er fólk sem við höfum ákveðið að þurfi aðstoðar við. Hvers vegna? Það hefur ekki aðgang að mat, það hefur ekki aðgang að vatni, þar deyja um 25% barna fyrir fimm ára aldur. Þetta er staðan þar sem við og Þróunarsamvinnustofnun erum að vinna við hjálparstarf. Það er við þessar aðstæður sem við leggjum okkar af mörkum og um það hefur ekki verið deilt. Við settum sameiginlega heildarlöggjöf í þinginu um þennan málaflokk árið 2008. Nú ákvað núverandi stjórnarmeirihluti að sprengja þá þverpólitísku samstöðu í loft upp og það með engum smávinnubrögðum, nýjum stjórnmálum, nýjum vinnubrögðum Framsóknarflokksins, nýjum vinnubrögðum Sjálfstæðisflokksins og ekki síst hv. þm. Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem hefur talað fyrir nýjum stjórnmálum í mörg ár. Það þarf að fylgja orðum eftir.

Hvernig eru þessi nýju vinnubrögð? Þau eru eins og þeim er lýst. Hverjar eru afleiðingar þess að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður? Við höfum farið yfir það hér í löngu máli. Það er verið að grauta saman framkvæmd og eftirliti. Það er verið að taka starfsemi sem er gríðarlega sérhæfð og krefst mikillar fagþekkingar og grauta henni inn í aðra starfsemi í ráðuneyti. Hvað mundu menn segja, t.d. hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, ef taka ætti Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið? Það er fullkomlega sambærilegt. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þetta krefst sérhæfðrar fagþekkingar og það hvernig menn ganga fram í þessu máli sýnir að þeir hafa ekki hundsvit á málaflokknum eða (Forseti hringir.) er algerlega sama um hann.