145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri spurningu hv. þingmanns hef ég í sjálfu sér ekki svo miklar áhyggjur af því að menn nýti sameininguna við utanríkisráðuneytið til þess að fjármagna eitthvað sem ekki fellur undir alþjóðlega þróunarsamvinnu. Ég held að það sé einlægur vilji í utanríkisráðuneytinu til þess að fara að skilgreiningum þróunarsamvinnunefndar OECD og þar er nákvæmlega skilgreint hvað fellur þar undir. Hins vegar er varhugaverðara að ekki er útfært neitt eftirlitskerfi.

Varðandi síðari spurningu hv. þingmanns sé ég engin merki þess að farið hafi verið að ábendingum forstjóra stofnunarinnar um að leita ráðgjafar hjá Ríkisendurskoðun eða sérfræðingum á sviði háskólasamfélagsins um útfærslu á svona eftirlitskerfi. Það er ótraustvekjandi að lögin útfæri ekki eftirlitskerfið. Með alla þessa peninga er hægt að finna einhvern vildarvin sem á gott fyrirtæki sem er í ráðgjöf. Er ef til vill hægt að semja við Capacent eða einhvern annan um að gera þetta? Ég ætla ekki að kasta rýrð á Capacent, en hefur það fyrirtæki einhverja þekkingu á fjármálaúttektum? Er hægt bara að semja við hvern sem er? Samið var við Eyþór Arnalds um úttekt á Ríkisútvarpinu. Er þetta alveg opið? Hver er hinn óháði aðili? Má bara semja við hvern sem er? Af hverju eru ekki settar einhverjar lágmarkskröfur um hvað óháður aðili þarf að uppfylla, að hann þurfi að minnsta kosti viðurkenningu Ríkisendurskoðunar? Ef verið er að fella allt heila peningabixeríið inn í utanríkisráðuneytið, af hverju er þá verið að undanskilja það eftirliti Ríkisendurskoðunar? Er ekki einfaldara að Ríkisendurskoðun hafi eftirlit með þessu öllu saman? Hún er þó alla vega stofnun sem heyrir undir þingið og þannig væri þá með einhverjum hætti hægt að mæta þeim sjónarmiðum sem ég hef verið að viðra.