145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

lengd þingfundar.

[15:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er ágætt að við formaður þingflokks Framsóknarflokksins erum sammála um að hér sé á ferðinni skipulagsmál. Þeim mun óskiljanlegra er að stjórnarflokkarnir eða Framsóknarflokkurinn eða öllu heldur utanríkisráðherra einn — hann er eini stuðningsmaður málsins á Alþingi — (Utanrrh.: Nei.) skuli kjósa að segja sundur þann frið sem verið hefur þvert á alla flokka um þennan mikilvæga málaflokk árum og áratugum saman bara til að ná gildistöku á þessu máli fram einu árinu fyrr en síðar. Það er algerlega óskiljanlegt og vitnar um hroka og yfirgang af hálfu flutningsmannsins.

Um stuðning annarra framsóknarmanna er það einfaldlega að segja að enginn þingmaður Framsóknarflokksins hefur tekið til máls við hina löngu 2. umr. um þetta mál til að lýsa stuðningi sínum við það. Enginn annar en flutningsmaðurinn sjálfur, enda er hann sá eini sem styður málið í stjórnarliðinu.