145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

loftslagsmál og markmið Íslands.

[16:34]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu vil ég óska hæstv. umhverfisráðherra til hamingju með þessa glæsilegu sóknaráætlun. Hún er gríðarlega metnaðarfull. Það er gengið lengra en nokkru sinni áður hefur verið gert. Þegar menn bera hana saman við einstök sveitarfélög og hvað þau hafa verið að gera held ég að við ættum miklu frekar að horfa til þess hvað Ísland hefur verið að gera áður. Ef við gerum þann samanburð má sjá að okkur miðar svo sannarlega áfram. Við erum vel á veg komin og þessi áætlun er það metnaðarfull að hún mun koma okkur í röð fremstu þjóða á þessu sviði. Við höfum verið ofarlega, svo sannarlega. Ísland hefur nær eitt ríkja náð 100% framleiðslu rafmagns og hitunar frá endurnýjanlegri orku. En það er margt í þessu sem ég held að menn hljóti að vera sammála um, þrátt fyrir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram, og þarna eru heldur betur stigin rétt skref.

Ég fór aðeins yfir stefnu annarra stjórnmálaflokka. Ég held að fullyrða megi að hægt sé að haka við mörg stefnumála allra flokka og það er jákvætt. Alls ekki allt, ég veit það, einhverjir þingflokkar hafa tekið skrefið lengra eins og gengur. En það að við náum að haka við stefnu flestra stjórnmálaflokka á Íslandi hlýtur að teljast afar jákvætt.

Svo er það nú einu sinni svo með sóknaráætlanir að það verður fyrst að leggja þær fram áður en hægt er að fjármagna. Þó er staðreynd að í þessu tilviki fylgja athafnir þeim orðum sem komið hafa fram. Fjárlagafrumvarpið ber þess vitni og það er vel. Á næstu árum munum við að sjálfsögðu reyna að bæta í þennan málaflokk. (Forseti hringir.) Mér finnst gott að samstaða sé um það á Alþingi eins og sú góða samstaða sem var um náttúruverndarlögin í umhverfisnefnd um daginn.