145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og verð að viðurkenna það að ég hef kannski ekki hlustað nógu vel eða ekki áttað mig á þessum varíanti hjá hv. þingmanni, að eins og hann sæi þetta fyrir sér þá hefðu ráðherrar ekki atkvæðisrétt. Það skýrir í rauninni málið að hluta til fyrir mér. Ég skal viðurkenna það að ég hef haft áhyggjur af því hvert það mundi leiða okkur að hafa alveg gríðarlegan sterkan meiri hluta, þ.e. ef það væru ráðherrarnir plús allir þingmennirnir. Mér finnst við vera nú þegar í nokkru klandri með að fara með meirihlutavaldið í hinni lýðræðislegu samræðuhefð, mér finnst ferlið fara of oft í þann farveg að ákvarðanir séu teknar í krafti meiri hlutans, skítt með það hvað minni hlutanum finnst. Mér finnst ekki vera nógu góður bragur á því.

Það væri gaman að heyra svolítið um skoðanir hv. þingmanns á þessu því ég hef grun um að þetta sé eitt af því sem hann hefur velt fyrir sér, þ.e. samspili hinnar lýðræðislegu umræðu og þess að taka lýðræðislegar ákvarðanir með meirihlutavaldi, með meiri hluta atkvæða. Ég mundi gjarnan vilja heyra meira um það.

En svo við ræðum ekki bara þingtæknileg atriði, en snúum okkur frekar að málinu sjálfu þá nefndi hv. þingmaður að gera þyrfti málamiðlanir. Hvar gæti okkur borið að landi í því, að mati hv. þingmanns, að gera málamiðlanir og komast aðeins fram á veginn og þá helst með því að bera þróunarsamvinnu og hagsmuni hennar fyrst og fremst fyrir brjósti?