145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:44]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að hún telji að nákvæmlega þessi tillaga sé hluti af þeim pólitíska vilja að draga úr áherslu á þróunarsamvinnu almennt, bæði hvað varðar fjárframlög og áherslur í pólitíkinni í heild. Ég bið hv. þingmann að leiðrétta mig ef svo er ekki.

Mig langar þá að spyrja hana þar sem enn og aftur hafa talsmenn meiri hlutans lagt áherslu á að hér verði engin fagleg breyting, með hvaða hætti inntak þróunarsamvinnu er í hættu, ef svo má að orði komast, með því að fella starfsemi stofnunarinnar undir ráðuneytið beint. Þá er ég kannski aðallega að hugsa um eftirlitsþáttinn og gagnsæisþáttinn og þau faglegu, dýrmætu sjónarmið sem þar eru annars vegar. Mér finnst það vera mikilvægasti þátturinn í þessari umræðu yfir höfuð, að við séum ekki að glata þeim mikilvægu þáttum.

Síðan langar mig að segja af því að ég er sammála hv. þingmanni að sú leið að fresta gildistökunni er að mörgu leyti mjög góð því þar er hægt að nálgast málið með þeim hætti að það breytist lítið sem ekkert efnislega í meðförum þingsins, þ.e. að það fái framgang eins og meiri hlutinn vilji að það líti út og fái síðan nýtt lýðræðislegt tékk í stað þess að teygja það og toga efnislega og síðan samþykkja það með hangandi haus allir saman, ef svo má að orði komast. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji einhverja aðra valkosti í stöðunni að því er varðar sameiginlega nálgun á lausn í málinu. (Forseti hringir.) Ég sakna þess reyndar að heyra ekkert í stjórnarþingmönnum með þetta en ég held að það væri ágætt fyrir okkur í ræðustól Alþingis að reifa fleiri möguleika.