145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór inn á sáttina margrómuðu. Það fékk mig til að velta fyrir mér öðru máli sem er ekki sátt um en það eru framlög Íslendinga til þróunarsamvinnu, sem er stefnt að að verði einhvern tíma 0,7% af vergri landsframleiðslu en voru lækkuð nýlega í 0,21% af hæstv. utanríkisráðherra. Ég velti fyrir mér hvernig hv. þingmaður mundi forgangsraða þessum málaflokki sjálfur ef hann hefði til þess fullt tækifæri þar sem hér er lögð fram tillaga sem að sögn á að gera starfið skilvirkara en er gagnvart stofnun sem í sjálfu sér er enginn ágreiningur um, sem stendur við skyldur sínar gagnvart fjárlögum og enginn virðist hafa neitt nema gott um að segja. Á sama tíma er gagnrýnivert að við stöndum ekki við það sem þingið ákvað fyrir þó nokkru síðan um framlög okkar. Þess vegna velti ég fyrir mér forgangsröðuninni. Er þetta í raun og veru tímapunktur til að fara í óskýra vinnu um að auka skilvirkni hjá stofnun sem er óumdeild þegar tilfellið er að við stöndum ekki við skuldbindingar sem Alþingi ákvað að við skyldum standa við? Jafnvel ef þessi hugmynd væri til þess fallin að auka skilvirkni talsvert, ættum við ekki að byrja á að standa við það sem við segjumst ætla að standa við? Ég velti fyrir mér hvernig væri best að forgangsraða því. Er kannski best að fara fyrst út í skilvirknivinnu áður en við stöndum við þær ákvarðanir sem við höfum þegar tekið?