145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hafði fyrirvara á því að vitna í hæstv. utanríkisráðherra um hvaðan hugmyndin væri komin, enda svo sem ekki ætlunin að leggja honum neitt rangt í munn. Ég hafði heyrt hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsa því að embættismenn ráðuneytisins hefðu lagt þessar hugmyndir fyrir hann á sínum tíma og honum væri kunnugt um að þær hefðu verið lagðar fyrir fleiri ráðherra, þannig að ég skildi það svo að þetta væri gömul hugmynd embættismanna í ráðuneytinu en ekki ný hugmynd Gunnars Braga Sveinssonar. En er það réttur skilningur að þetta sé einhver sérstök hugmynd ráðherrans sem nú situr sem hér er verið að fjalla um? Það væri ágætt að fá úr því skorið.

Ég fagna því að ráðherrann komi til efnislegrar umræðu og mér finnst að við séum að tala saman. Ráðherrann segir að þetta sé lítil stofnun, að um skipulag geti alltaf verið skiptar skoðanir, að ekki sé verið að sækja í þetta hagræðingu eða sparnað heldur fyrst og fremst betri nýtingu á því fólki sem í þessum verkum er. Það hefur greinilega aðra skoðun á því hvernig starfskraftar þess verði best nýttir.

Fyrst að við erum sammála um að málið er svona vaxið er það þá ekki útlátalaust fyrir ráðherrann og væri það ekki til marks um það að við værum að þroskast eitthvað í lýðræðisstarfi okkar í landinu ef hann féllist á það sjónarmið að fresta því að þessi framkvæmd yrði fyrr en að loknum þingkosningum þar sem hún varðar, eins og ráðherrann segir, litla stofnun og snýst ekki um að spara peninga eða hagræða í rekstrinum heldur fyrst og fremst til lengri framtíðar að nýta betur mannskap?