145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi ganga lengra en að segja að þetta væri sérhæft viðfangsefni í verkfræðilegu framkvæmdalegu tilliti eins og Vegagerðin. Þetta er enn þá sérhæfðara en það því að þetta er mikið og vandasamt fag. Og sagan segir okkur það. Við sem höfum fylgst með umræðum og tekið þátt í þeim lengi á þessu sviði þekkjum sögu býsna sorglegra slysa þar sem mikil mistök voru gerð. Ég man eftir því að fyrir svo sem 20 árum var mjög vinsæll frasi í umræðum um þessi mál á alþjóðavettvangi mjólkurstöð sem ónefnd frændþjóð okkar byggði í Afríku, gríðarlega flott. Það kom hins vegar aldrei dropi af mjólk inn í hana því að þeir gleymdu að það voru engar kýr í landinu, en þeir ætluðu að hjálpa landinu með að byggja mjólkurstöð og mjólkuriðnað, að sjálfsögðu með Alfa Laval-vélum. Þá voru menn enn á þeim slóðum að vera að ryðja brautina fyrir sölu á varningi og búnaði. Saga uppbyggingar þróunarsamvinnu sem fags geymir fullt af svona slysum og mistökum. Þess vegna skulum við passa okkur. Þetta er líka ákaflega viðkvæmt vegna þess návígis við misgott stjórnarfar sem menn eru að vinna gagnvart. Þess vegna held ég að sú leið til dæmis sem Þróunarsamvinnustofnun okkar hefur fært sig í auknum mæli og kannski aðallega inn á, að vinna þetta með nærsamfélaginu og stjórnvöldum á sveitarstjórnarstigi, sé miklu gæfulegri á margan hátt en það sem menn gerðu oft á árum áður, neyddust kannski til að gera, að vera að reyna að aðstoða hryllilega bágstatt fólk í löndum þar sem stjórnarfarið var skelfilegt, spillt og menn urðu að fóta sig óskaplega varlega í gegnum þann frumskóg. Auðvitað vilja menn ekki þegar verið er að ráðstafa opinberu fé í þróunarsamvinnu að borgaðar séu mútur, er það? Eða að eitthvað af þeim fjármunum lendi í höndunum á spilltustu stjórnarherrunum? Nei. En þar með er þetta orðið mjög sérhæft og vandasamt. Við höfum verið lánsöm. Við höfum verið lánsöm borið saman við, ég vildi segja flest önnur lönd sem ég þekki til. (Forseti hringir.) Það hafa ekki almennt komið upp umdeild atvik eða stórslys af þessu tagi hjá okkur. Er það ekki gott? Hvers vegna ættum við þá að breyta? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)