145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég held að þegar við ræðum um tvíhliða þróunarsamvinnu, sem sagt samstarf við lönd og svæði sem við höfum valið og göngum síðan til samninga við, og síðan erum við þar með skuldbundin því að standa að tilteknum verkefnum og efna ákveðna samninga við þessi lönd, það er það sem við erum hér almennt að tala um, að það lýtur allt öðrum lögmálum í raun en framlög okkar frjáls eða samningsbundin inn í hinar stóru stofnanir eða fjölþjóðleg verkefni. Það er í miklu minna mál í mínum huga og í raun og veru bara fyrirkomulagsatriði hvernig það fer úr ríkissjóði í gegnum ráðuneyti til þessara stofnana og er ekkert stórt vandamál eða vesen með það. Það er eðlilegt að það fari í gegnum utanríkisráðuneytið. En það eru engin rök fyrir því að þróunarsamvinna sem er á okkar forsendum sem við byggjum upp og samningsbindum sjálf eigi að vera inni í ráðuneytinu.

Ég sé engin rök fyrir því að breyta því fyrirkomulagi sem við höfum byggt upp og hefur gefist mjög vel. Ég tel að áherslurnar hafi verið góðar, mótast í rétta átt undanfarin ár, það hafi til dæmis verið rétt að fækka frekar samstarfslöndunum en geta gert betur og sérhæft betur verkefnin í færri löndum, m.a. vegna þess að við erum ekki mjög stórt land og erum ekki með mikla peninga. Í Þróunarsamvinnustofnun hefur þetta allt saman gerst. Þeir eiga auðvitað stærstan þátt í því að móta áherslur Íslands í því að fara að vinna þetta með nærsamfélaginu, að leggja áherslu á málefni kvenna og barna og grunnvelferðarþjónustu og annað í þeim dúr. Það eru allt saman fínar áherslur. Ég ætla ekki að segja að utanríkisráðuneytið hafi ekki verið eitthvað með í því, en alla vega hefur það gengið vel hjá Þróunarsamvinnustofnun.

Þá skortir mig alveg rökin fyrir að breyta fyrirkomulaginu. Ef þetta væri nú eitthvert ægilegt bákn (Forseti hringir.) sem hyrfi þá af sjónarsviðinu. En í reynd snýst þetta um spurninguna um hvort þetta eigi að vera (Forseti hringir.) sjálfstæð stofnun með sjálfstæðum forstjóra eða ekki.