145. löggjafarþing — 40. fundur,  25. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:20]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja forseta hvort og hvenær hann ætlar að taka upp hanskann fyrir okkur þingmenn minni hlutans og verða við því að við okkur sé rætt um það boð sem við höfum sent til stjórnarmeirihlutans um einhvers konar tillögur um sátt í málinu. Við höfum ekki einu sinni verið virt viðlits. Menn hafa ekki viljað ræða þetta. Ég held að við höfum komið með einar þrjár, fjórar hugmyndir að því hvernig mætti leysa þetta mál en ekki fengið nein svör.

Ofan á þetta er líka afar óvenjulegt með hvaða hætti þetta mál var keyrt í gegnum nefnd. Ef menn skoða bara hvernig vinnulag þingsins hefur verið er nýmæli hvernig það var keyrt hér í gegn. Við höfum óskað eftir því að forseti taki upp hanskann fyrir okkur og hjálpi okkur í því að þetta mál fái að minnsta kosti einhvers konar eðlilega málsmeðferð með því að senda það til nefndar aftur. En við heyrum ekki neitt.

Því spyr ég, forseti: Er von á því (Forseti hringir.) að við förum að fá einhver svör við þessum hugmyndum og beiðnum og líka við því hvort forseti ætli að fara að taka upp hanskann fyrir okkur hér?