145. löggjafarþing — 42. fundur,  27. nóv. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[12:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er mjög undarlegt ákvæði. Í stað þess að byggja á þeim reglum sem til staðar eru í dag sem auðvitað heimila gerð þjónustusamninga með pólitískri uppáskrift ráðherra, bæði fagráðherra og fjármálaráðherra, á að búa til sjálfstæða reglu í fjárreiðulögum um að embættismenn geti útvistað verkefnum. Upphafleg hugmynd frumvarpsins var að það gæti orðið allt að fjórðungur rekstrar. Vegferð þessa ákvæðis í þessu frumvarpi og meðförum nefndarinnar sýnir kannski að þetta er ekki allt meitlað í stein. Frumvarpið í fyrra gerði ráð fyrir að hlutfallið væri 10%. Svo kemur það fram núna og þá er hlutfallið orðið 25%. Svo kemur fjárlaganefnd með snilld sinni og finnur út að rétta talan sé 15% sem sýnir að þetta er ekki allt eins meitlað í stein og ætla mætti.

Hið pólitíska inntak þessa ákvæðis er undarlegt, að ætla að fría ráðherra frá ábyrgð á því að staðfesta slíka útvistun verkefna (Forseti hringir.) komi hún til.