145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

hækkun bóta almannatrygginga.

[15:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er spurt um viðkvæman málaflokk, bætur almannatrygginga, en við höfum haft þá löggjöf um þessi mál að breytingar á réttindum taki mið af stöðunni við áramót, þ.e. að breytingar séu gerðar við áramót. Mér sýndist um mitt sumar að það stefndi í að bætur mundu hækka um 8,9%. Í fjárlagafrumvarpinu vorum við búin að reikna þessar tölur upp miðað við nýjustu þróun og þá göngum við út frá 9,4% hækkun um áramót. Við 2. umr. er ljóst að orðið hefur enn frekari hækkun á launum á árinu en við gerðum ráð fyrir við framlagningu fjárlagafrumvarpsins þannig að það stefnir í 9,7% hækkun um áramótin á þessum bótum. Sú hækkun tekur mið af því sem vantar upp á að bætur hækki á árinu 2015 borið saman við fjárlög og síðan raunþróun á árinu annars vegar og hins vegar er inni í þessari 9,7%-tölu sú hækkun sem vænst er að verði á næsta ári.

Við áramót munu, eftir 9,7% hækkunina, bætur hafa hækkað umfram laun eins og þau hafa hækkað samkvæmt kjarasamningum þar til næsta hækkun samkvæmt kjarasamningunum tekur gildi sem verður á vormánuðum. Þá munu kjarasamningarnir fara upp fyrir bótaflokkana í prósentutöluhækkun. Svo má vænta þess að næst þegar bætur hækki jafnist þetta einhvern veginn út. Svona er höfrungahlaupið í þessu. Það er samt mikilvægt að við ræðum það hér hvort menn vilja gera breytingu á lögum þess efnis að bætur séu í raun einhvers konar laun vegna þess að við höfum ekki litið þannig á fram til þessa og þar af leiðandi gilda ekki í einu og öllu sömu lögmál um bótagreiðslur og gilda á vinnumarkaði þar sem samið er um kaup og kjör.