145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

hækkun bóta almannatrygginga.

[15:51]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hóf mál sitt á því að þetta væri viðkvæmur málaflokkur. Það er alveg hárrétt. Þessi viðkvæmi málaflokkur er í höndunum á okkur á Alþingi. Hv. þm. Helgi Hjörvar sagði að Alþingi væri kjararáð aldraðra og öryrkja. Það er sannarlega rétt.

Það hefur ekki alltaf verið miðað við áramót. Þegar kjarasamningar voru gerðir 2011 undirritaði þáverandi velferðarráðherra, Guðbjartur heitinn Hannesson, blessuð sé minning hans, reglugerð sem hækkaði þetta meðal annars og meira að segja á miðju ári. Mér skilst að það hafi ekki verið gert áður.

Spurning mín til hæstv. fjármálaráðherra er áfram, út frá 22 milljarða kr. afgangi á þessu ári sem ég spái að eigi eftir að hækka þegar niðurstaða ríkisreiknings kemur fram þannig að það er borð fyrir báru: Af hverju náum við ekki samstöðu á Alþingi um að ganga í þetta afturvirkt líka af því að ríkið, gerðardómur, (Forseti hringir.) aðilar vinnumarkaðarins og allir hafa lagt þá línu að þetta skuli vera afturvirkt? Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að beita sér fyrir því að aldraðir og öryrkjar fái hækkun afturvirkt eins og allir aðrir í þjóðfélaginu.