145. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2015.

lögmæti smálána.

311. mál
[16:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Allt frá því að það var heimilað að veita þessi svokölluðu smálán hef ég haft illan bifur á þeim. Það var reynt að herða löggjöfina í kringum þau en það virðist ekki hafa dugað til. Þetta er í mínum huga okurlánastarfsemi sem er beint að þeim hópum sem eru hvað veikastir fyrir, ungu fólki og öðrum þeim sem eru í þeirri stöðu að hafa ekki möguleika á að fá lán en hafa þennan möguleika og lenda í vítahring með þau. Upp hafa komið ófá dæmi þar sem fólk lendir í algjörum vítahring. Mér finnst að það verði bæði að herða eftirlit með þeim fyrirtækjum sem veita þessi smálán, að þau fari ekki fram úr þessum 50% vöxtum sem er talað um, og yfir höfuð að þrengja þetta (Forseti hringir.) það mikið að ekki verði sú mikla misnotkun smálánafyrirtækja, að mér finnst, á neytendum sem verið hefur.