145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

hamingjuóskir til forseta.

[15:14]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það fer vel á því á þessum degi að forseti rjúfi hefðir þegar hann tekur nú til máls og vísar ekki til forsetaembættisins heldur segir: Ég þakka kærlega fyrir hlýleg og eftirminnileg orð í minn garð sem hv. þm. Helgi Hjörvar hefur mælt hér fyrir hönd þingmanna. Ég er ákaflega þakklátur fyrir það hversu hraustlega þingmenn tóku undir orð hans. Það þýðir hins vegar að forseti verður núna að tvíeflast til dáða og láta ekki aldurinn trufla sig í þeim efnum. Það er eins og hv. þingmaður nefndi orðinn dálítið langur tími frá því að ég kom inn á þing, fyrst sem þrautavaraþingmaður, sem kom sjálfum mér mjög á óvart, en einnig frá þeim tíma sem ég tók sæti fyrst sem þingmaður árið 1991. Óraði mig þá síst fyrir því að ég sæti hér enn þá á árinu 2015.