145. löggjafarþing — 45. fundur,  2. des. 2015.

lokafjárlög 2014.

374. mál
[17:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að það sé ekkert hægt að gera. Húsnæðismálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvörp til þess að bregðast við ástandinu. Fyrir þinginu er frumvarp til breytinga á húsaleigulögum, húsnæðisbótafrumvarp er á leiðinni og sömuleiðis frumvarp sem varðar stofnstyrki. Allt eru þetta aðgerðir sem taka á ólíkum þáttum þess vanda sem við ræðum hér.

Ég er eingöngu að benda á að á meðan skortur er á framboðshliðinni þá hjálpar það ekki eitt og sér að bæta í á eftirspurnarhliðinni. Það getur leitt til hærra leiguverðs og hærri húsnæðiskostnaðar; stuðningur inn í skort endar kannski bara í vasa leigusalans eða húsbyggjandans. Því miður. (Gripið fram í.) Já, dæmið sem hér var tekið var einmitt á framboðshliðinni sem virðist hafa skilað ágætisárangri. Stofnstyrkjafrumvarp húsnæðismálaráðherra er hugsað til þess að taka aðeins á framboðshliðinni. Það þarf augljóslega átak og samvinnu við sveitarfélögin til þess að gera fleiri lóðir hér á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þenslan hefur kannski verið hvað mest á þessu sviði, klárar fyrir byggingar.

Ég er sammála því að það er ekki skynsamleg, varanleg lausn að banna lánsveðin með öllu. Ég þekki mörg dæmi þess persónulega að lánsveð hafa reynst mikilvæg til að komast yfir erfitt tímabil. Ég nefndi hér vexti og vaxtakostnað á Íslandi áðan vegna þess að mér hefur þótt sem menn hafi ekki nægjanlega beint sjónum sínum að honum. Menn ræða oft um gjaldmiðilinn, en stöðugleiki í efnahagsmálum og ábyrg opinber fjármál eru grunnurinn að lægra vaxtastigi. Í augnablikinu erum við því miður á þeim stað að við höfum hækkað laun (Forseti hringir.) langt umfram framleiðslu og höfum kallað yfir okkur með eigin aðgerðum á vinnumarkaði á undanförnu ári hærra vaxtastig. Þetta verða menn að læra. Ef menn skilja þetta ekki þá munu menn aldrei sjá lægri vexti en þá sem við erum með í dag.