145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka nú fyrir þessa ræðu þó að hún hafi á köflum verið mjög óskiljanleg. Það er eins og hv. þm. Árni Páll Árnason hafi verið að tala um Kúbu norðursins, eins og fyrirrennari hans í ráðherradómi, Gylfi Magnússon, lýsti svo fjálglega hér um árið. Hv. þingmaður talar talað um mannfjandsamlegt verklag varðandi það fyrirkomulag sem er í lyfjamálum Íslendinga. Það hefur ekkert breyst í tíð þessarar ríkisstjórnar. Eigum við að tala um mannfjandsamlegt verklag? Eigum við til dæmis að tala um að borgarstjóri Samfylkingarinnar er nú að innrétta búð í kjallaranum í húsinu sínu og meinar þar fötluðum aðgang, fékk undanþágu hjá borginni, sem hann stýrir sjálfur, þannig að fatlaðir hafa ekki aðgang að þessari búð? Við skulum bara átta okkur á því hvað verið er að tala um hér. Það er ótrúlegt að sitja undir svona ræðuhöldum þar sem dregin er upp svo svört mynd af samfélaginu. En það má vera að eftir tap í síðustu alþingiskosningum sjái Samfylkingin bara svart. Það hlýtur bara að vera.

Við vitum að Samfylkingin er bótavæðingarflokkur. Hér fór þingmaðurinn í löngu máli yfir það hversu ósmekklegt það væri af ríkisstjórninni að þær barnabætur sem ekki færu út — takið eftir — vegna hækkunar tekna í samfélaginu skyldu ekki samt sem áður renna til viðkomandi fólks því að það er alltaf áætluð upphæð. Sem betur fer, virðulegi forseti, gengur samfélaginu betur. Sem betur fer eru hér hærri tekjur í samfélaginu þannig að færri þurfa bætur.

Hv. þingmaður talaði um að það ætti að gefa aftur á garðann ef afgangur yrði í (Forseti hringir.) ríkissjóði af til dæmis þessum bótum. Ég spyr: Hvernig hefði hann farið að því í tíð sinni sem félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) að gefa aftur á garðann án þess að brjóta lög?