145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[18:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja út í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, það er sagan endalausa.

Hv. þingmaður var á þingi á síðasta kjörtímabili þannig að hann þekkir upphafið á framkvæmdasjóðnum, hvernig hann var settur á fót til að bregðast við auknum ágangi ferðamanna og þörf á uppbyggingu innviða í ferðaþjónustunni. Mér finnst að við hefðum átt að byrja áratug eða jafnvel áratugum fyrr því að við höfum eiginlega alltaf verið að hlaupa á eftir í þessum málum. Nú er svo komið að við erum í þriðja skiptið að taka inn á fjáraukalög umtalsverðar upphæðir í framkvæmdasjóð. Maður veltir fyrir sér hvort ráðherra sem ræður ekki við einn lítinn Framkvæmdasjóð ferðamannastaða ráði yfir höfuð við verkefnið. Ég bara verð að segja það, þetta er með ólíkindum. Tekjuöflunin sem átti að vera, náttúrupassinn, náði ekki í gegn og það sem við höfum núna er gistináttagjaldið sem hv. þingmaður kom einmitt inn á.

Gistináttagjaldið er 100 kr. á hverja nótt. Það er eins og er víða erlendis, „city tax“, en ég hef heyrt gagnrýni á þennan skatt og hvernig eigi að dreifa gistináttagjaldinu til sveitarfélaganna, hvort sveitarfélögin sem fá gistináttagjaldið, eru með flest hótelin, fái gistináttagjaldið eða hvernig það eigi að vera, það er svolítið flókið. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en ég hef einnig heyrt að það sé tiltölulega auðvelt að komast hjá þessum skatti. Ég átta mig ekki á því hvort upphæðirnar sem við sjáum í fjárlögum stemmi við fjölda gistinátta í landinu.

Hvaða hugmyndir hefur hv. þingmaður(Forseti hringir.) varðandi það hvernig við fjármögnum uppbyggingu ferðamannastaða, hvort við eigum að gera það af ríkisfé og virðisaukaskatti sem ferðamenn skilja eftir sig?