145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert í umræðu undanfarinna daga á Alþingi að engin boðleg rök hafa komið fram frá stjórnarmeirihlutanum fyrir því að kjör aldraðra og öryrkja eigi ekki að fylgja lágmarkslaunum. Nú reynir á hvað stjórnarmeirihlutinn hyggst gera. Við höfum lagt fram frumvarp um að bætur lífeyrisþega fylgi lágmarkslaunum. Nú verður stjórnarmeirihlutinn dæmdur af verkum sínum.

Í fjárlagagerðinni núna er haldið áfram með þá sveltistefnu sem stjórnarmeirihlutinn hefur uppi gagnvart meðaltekjufólki í landinu með því að breyta barnabótum og vaxtabótum í láglaunabætur þannig að meðaltekjufólk njóti þeirra ekki.

Maður mundi kannski skilja aðgerðir af þessum toga ef við byggjum við efnahagslega vá. En þannig er það ekki. Það eru ekki bara fordæmalausar aðstæður í ríkisrekstrinum, heldur sjáum við líka fréttir af því að burðaratvinnuvegum þjóðarinnar gengur sem aldrei fyrr. Athyglisverð er úttekt Kjarnans í gær um að fallandi olíuverð skili búhnykk fyrir útgerðina sem nemur 10 milljörðum á þessu ári. Það kemur ekki á óvart að útgerðarmenn sögðu við mig í haust að þeir myndu ekki eftir öðrum eins aðstæðum og greinin býr við núna. Það er gott að sjávarútveginum gangi vel, en þá skýtur skökku við að ríkisstjórnin hafi lækkað veiðigjöld um tugi prósenta á þessu kjörtímabili.

Það verður betur og betur ljóst hversu mikilvægt það er að fara að tillögum okkar samfylkingarmanna um að fyrirkomulag fiskveiðistjórnar byggi á því að endurgjald fyrir veiðiheimildir ráðist í frjálsum viðskiptum á markaði þannig að markaðurinn ákveði endurgjald fyrir veiðiheimildirnar, greiðslur til almennings fyrir afnot af sameiginlegri auðlind þannig að þjóðin deili kjörum með (Forseti hringir.) sjávarútveginum, jafnt í blíðu sem stríðu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna