145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Er Davíð Oddsson ekki til? Misminnir mig að hér hafi setið forsætisráðherra sem heitir Davíð Oddsson eða er forsætisráðherra farinn að gleyma fleiru en kosningaloforðum sínum?

Við að lesa svar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um aðild okkar að innrásinni í Írak er engu líkara en að Davíð Oddsson forsætisráðherra hafi aldrei með yfirlýsingu sinni 19. mars 2003 gert okkur að hluta af hinum viljugu þjóðum. En því miður gerði Davíð Oddsson það. Og þó að það sé sannarlega ástæða til að biðja Íslendinga afsökunar á því er auðvitað fyrst og fremst ástæða til að biðja fórnarlömb þeirra aðgerða afsökunar á því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er algerlega óboðlegt að í formlegu svari til Alþingis láti forsætisráðherra eins og þessi yfirlýsing hafi aldrei verið gefin, jafn hörmuleg og hún var og jafn rík ástæða og það væri til að leyna yfirlýsingu Davíðs Oddssonar 19. mars 2003 og raun ber vitni, en það er því miður ekki hægt vegna þess að við vorum gerð ábyrg fyrir því sem þarna fór fram, illu heilli, herlaus og friðsöm þjóð sem alltaf höfðum verið það fram að því og vildum vera það.

Því var spillt með yfirlýsingu forsætisráðherra 19. mars 2003 og það er ótrúlegt að lesa svar sem hér var dreift í vikunni þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kannast ekkert við það að forsætisráðherra Davíð Oddsson hafi gefið út yfirlýsingar í þessu efni eða að við höfum verið aðili að hinum viljugu þjóðum. Það vorum við, því miður.

Ég held að það sé full ástæða fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson að íhuga það að afturkalla svar sitt, (Forseti hringir.) svara þinginu aftur um þetta efni og sannarlega til að biðja afsökunar á þessum leiðu mistökum og hörmulegu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna