145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[11:45]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hlutverk ríkisstjórnar er margþætt, en grundvallarhlutverk hennar er að halda þjóð sinni saman í einu samfélagi. Það er mín skoðun að núverandi ríkisstjórn sé ekki að takast þetta. Stundum hvarflar að mér að hún sé alls ekki að reyna að gera þetta. Hver er mælikvarðinn á slíkt? Frá mínum sjónarhóli ber að horfa á það hvort samfélagið finnur sig vera saman, að við séum öll á sama bátnum eða hvort stefni í sundur með okkur og það er því miður að gerast núna. Tekjuskiptingin eða misskiptingin í þjóðfélaginu er að fara í sama farveg og gerðist á 10. og síðasta áratug síðustu aldar og á árunum fram að hruni. Á því leikur enginn vafi að það gerðist. Á því leikur enginn vafi hygg ég núna að þróunin stefnir í þessa átt. Hvernig kemur ríkisstjórnin að slíkum málum? Jú, kjör fólks í landinu ráðast af því sem kemur í vasann hjá hverjum og einum og einnig hinu hvað upp úr vasanum fer. Það ákvarðar kaupmátt okkar og lífskjör okkar. Þetta er einn þátturinn sem ber að horfa til. Hinn þátturinn sem við hljótum að beina sjónum að eru innviðir samfélagsins, vegna þess að þeir eru trygging fyrir jöfnuði á ýmsum sviðum. Hvernig fer ríkisstjórnin með þessa innviði, hvernig umgengst hún þá, heilbrigðiskerfið, almannatryggingarnar, löggæsluna og svo framvegis? Þetta eru þættir sem þarf einnig að horfa til.

Ég sagði áðan að ríkisstjórnin hefði komið að þessari þróun, bæði að sjálfsögðu hvað síðastnefndu þættina varðar, en einnig í áherslum hennar á skattamál. Við fengum strax vísbendingu um hvert stefndi á fyrstu dögum valdatíðar þessarar ríkisstjórnar þegar ákveðið var að afleggja auðlegðarskattinn. Hann var að sönnu settur til tiltekins tíma, það er alveg rétt, en ég er sannfærður um að það hefði orðið framhald á þeim skatti ef fyrrverandi ríkisstjórn hefði áfram setið að völdum. Það er mín sannfæring. Hún gerði annað sem skipti sköpum um tekjur ríkisins og það snerti veiðigjaldið. Það var stórlega dregið úr því og ákvörðun tekin um það á fyrstu dögum valdatíðar ríkisstjórnarinnar. Þetta var rifjað upp í morgun og í umræðunni áðan. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir rifjaði þetta upp. Árni Páll Árnason, hv. þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, gerði slíkt hið sama í ræðu um störf þingsins í morgun og vísaði til þess að lækkun á olíuverði á heimsmarkaði væri þess valdandi ein sér að hlutur útgerðarinnar vænkaðist um 10 milljarða. Ég heyrði ekki betur. Velgengni hennar er fagnað og ég tek undir það, en að sama skapi viljum við að ávinningurinn af vinnslu þessarar dýrmætustu auðlindar Íslands, sjávarauðlindinni, gangi yfir samfélagið allt. Ríkisstjórnin tók ákvörðun um það í upphafi síns valdaferils að svo skyldi ekki vera nema í takmörkuðum mæli og miklu minna mæli en við hefðum viljað sem áður héldum um stjórnartauma í landinu.

Síðan er það orkuskatturinn. Ríkisstjórnin er ekkert sérstaklega gefin fyrir orkuskatt. Það kemur mér ekki á óvart. Það gleðilega sem er að gerast núna er að orkuskattur er að verða sú Lilja sem sífellt fleiri innan stjórnarandstöðunnar vilja nú kveða, en það voru nú aðrir sem gerðu það upphaflega. Þetta hefur verið eitt af megináherslumálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og við höfum sett fram mjög ítarlegar tillögur um þetta á undanförnum missirum og settum þær í framkvæmd þegar við sátum í Stjórnarráðinu. Þetta eru því engin ný klæði, en ég fagna því ef Píratar ætla að koma upp í okkar bát með þá stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að skattleggja stóriðjuna, skattleggja orkuna. Síðan eru að verða ýmsar breytingar á orkuskattsumhverfinu, en þetta er grunnhugsun sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lengi lagt ríka áherslu á.

Þetta eru áherslur ríkisstjórnarinnar annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar, afnám auðlindaskatts, lækkun veiðigjalda og auðlindagjalds og síðan er það þessi orkuskattur. Þarna er skýrum valkostum teflt fram. Að sjálfsögðu hefur þetta áhrif á lífskjörin í landinu. Það hefur áhrif á lífskjörin í landinu hver hagur ríkissjóðs er hverju sinni vegna þess að hann fjármagnar spítalana og skólana, heilsugæsluna, löggæsluna o.s.frv. Því minna fjármagn sem þar er til staðar í sameiginlega sjóði okkar, því rýrari verður hlutur þessara þátta allra.

Þegar við tölum um kjör þeirra sem minnst hafa í landinu þá dugar ekki að horfa bara á tölurnar sem slíkar og þróun þeirra taxta sem ákvarðaðir eru af okkur hér og renna í gegnum almannatryggingar. Það dugar ekki eitt sér. Við þurfum að horfa líka á útgjöldin. Við verðum að minnast þess og horfast í augu við það að niðurstöður í könnunum sem gerðar hafa verið á vegum Krabbameinsfélags Íslands annars vegar, dr. Ingimar Einarsson, og síðan Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands í tvígang, prófessor Rúnar Vilhjálmsson hefur staðið fyrir því og kynnt þær, eru mjög á einn veg. Nú er svo komið — og það er ekki þessari ríkisstjórn einni að kenna, þá er ég að horfa til 20, 30 ára — að hlutur sjúklinga í útgjöldum heilbrigðiskerfisins nemur fimmtungi. Í þessum könnunum kemur fram að tekjulægsta fólkið sem að uppistöðu til er úr röðum öryrkja og aldraðra veigrar sér við að leita heilbrigðisþjónustu vegna þess að tekjurnar eru ekki nægar, útgjöldin eru orðin of mikil. Þetta er samhengið sem við verðum að horfa til. Það nægir ekki þótt það sé hrikalegt að heyra tölurnar nefndar og heyra að þeir öryrkjar sem lægstir eru fá langt innan við 200 þús. kr. á mánuði, þetta var rifjað upp í dag, ég man ekki hvort það var 187 þús. kr. eða 172 þús. kr., ég er ekki með tölurnar fyrir framan mig. Þetta eru lágar tölur en verða skelfilegri þegar þær eru mátaðar inn í þann veruleika ef maður býr við heilsuskort, ég tala nú ekki um við dýrt húsnæði. Þetta er samhengið sem við verðum alltaf að horfa til.

Þess vegna þarf að spyrja þegar við metum framgöngu stjórnvalda hverju sinni og við spyrjum um hag þegnanna: Hvernig er að vera tekjulítill og heilsutæpur og búa við heilsubrest? Hvernig er það? Er það betra eða verra en áður var? Hvernig er að vera tekjulítill og leigja á almennum leigumarkaði? Hvernig er það? Er það betra eða verra? Svona hljótum við að meta framgöngu ríkisvaldsins og árangur þess að rækja það sem ég kalla meginhlutverk hverrar ríkisstjórnar að halda þjóð sinni saman í einu samfélagi. Það hefur ekki tekist.

Þess vegna langar mig til að taka undir með mörgum þingmönnum úr stjórnarandstöðunni sem hafa sameinast um eina meginkröfu. Hún er sú að bæta hlut öryrkja og aldraðra og að sú kjarabót verði afturvirk. Þess vegna leggjum við það til í fjáraukalögum sem eiga að taka til útgjalda á þessu ári. Í niðurstöðu á ágætu nefndaráliti frá minni hluta fjárlaganefndar segir, með leyfi forseta:

„Með breytingartillögum minni hlutans er gerð sú sanngjarna tillaga að kjör eldri borgara og öryrkja verði bætt í samræmi við hækkun lægstu launa og greiðslur hækki frá 1. maí á þessu ári eins og laun á almennum markaði. Því er lagt til að veitt verði um 6,6 milljarða kr. framlag til að bæta kjör eldri borgara og öryrkja.“

Undir þetta tek ég heils hugar. Við höfum tekið eftir því að nánast allir sem tekið hafa til máls í umræðunni af hálfu stjórnarandstöðunnar leggja megináherslu á þetta því það er alveg rétt sem sagt hefur verið að við í þessum sal erum kjararáð fyrir þessa hópa. Það erum við sem tökum þessar ákvarðanir og okkur ber að axla ábyrgð á því.

Er þetta bara peningalegt mál? Já, fyrst og fremst því það skiptir máli hvað maður hefur í vasanum til að standa straum af útgjöldum við að reka heimili. En þetta er líka sanngirnismál. Ef ríkisstjórn eða stjórnvöldum á að takast það ætlunarverk og vilja taka okkur öll með inn í þá spyrðu að sætta samfélagið og halda þjóðinni saman sem samfélagi, þá verður fólk að hafa það á tilfinningunni og það þarf að vera innstæða að baki þeirri tilfinningu að það ríki sanngirni. Ef við gerum þetta ekki og erum ekki komin með myndarlegt framlag til þeirra sem hafa minnstar tekjurnar, ekki síst í ljósi þeirra himinháu greiðslna sem við sjáum marga vera að fá, þá erum við að bregðast hlutverki okkar. Þá tekst okkur ekki að halda þjóðinni saman.

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að vekja máls á mörgum þáttum hér og ég vil nefna eitt atriði sem hefur komið fram í ræðum mjög margra sem hafa tekið til máls. Það er annars vegar að benda á að margt er ófyrirsjáanlegt og þess vegna er þörf á hreyfanleika við fjárlagasmíði. En hins vegar er líka margt fyrirsjáanlegt. Það var alveg fyrirsjáanlegt að það þyrfti að setja viðbótarfjármagn til ferðamannastaða. Var það ekki alveg fyrirsjáanlegt? Nú er verið að tala um að 850 milljónir að renni þangað. Þetta eru þær upphæðir eða einhvers staðar á þessu róli sem stjórnarandstaðan hamraði á fyrir réttu ári í þessum sal þegar verið var að ganga frá fjárlögum fyrir árið 2015 að þyrfti að lágmarki, í ljósi þess að ferðamannastraumurinn til Íslands væri að aukast og við yrðum að grípa til ráðstafana til varnar náttúru landsins. Þetta var fyrirsjáanlegt. Nú er sá gamli fyrirsjáanleiki að birtast okkur í fjáraukatillögum ríkisstjórnarinnar.

Sumt kann að hafa verið líka fyrirsjáanlegt eða hægt að hafa áhrif á en var ekki gert. Ég nefni þar arðgreiðslurnar. Í áliti minni hluta fjárlaganefndar er vikið sérstaklega að arðgreiðslum úr bönkunum og bent á það að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar til fjárlaga fyrir árið 2016 sé gert ráð fyrir að Landsbankinn skili 7,1 milljarði kr. í arð til ríkissjóðs. Það er bent á þetta. En það er líka rifjað upp að við afgreiðslu fjárlaga fyrir réttu ári í desember árið 2014 var gert ráð fyrir að Landsbankinn skilaði 6 milljarða kr. arði í ríkissjóð. Síðan gerist það eftir þau áramót að bankastjórn bankans lagði til arðgreiðslu sem samþykkt var skömmu síðar á aðalfundi og nam hlutur ríkissjóðs í henni 25,6 milljörðum kr., sem er 17,9 milljörðum kr. hærri arðgreiðsla en fram kom í áætlun fjárlaga.

Auðvitað var þetta á þessum tíma líka fyrirsjáanlegt eða átti að vera það og þess vegna gagnrýnir minni hlutinn ónákvæmni í vinnubrögðum hvað þetta snertir. En ég vek sérstaklega athygli á þessu núna í ljósi áforma ríkisstjórnarinnar að ætla að selja hlut ríkisins í Landsbankanum eða að hluta til. Það tel ég vera mjög óráðlegt. Margoft hefur verið bent á það í ræðum um það efni hér á þingi að það sé óráðlegt af ýmsum ástæðum. Markaðsástæðum, að bankar séu á sveimi á markaðstorginu og boðnir til sölu þannig að ekki sé hagstætt að því leyti að yfirfylla markaðinn. Síðan benda menn á þær miklu arðgreiðslur sem eru að renna til samfélagsins. Í þriðja lagi eru þau sjónarmið sem hv. þm. Frosti Sigurjónsson hefur staðið í fararbroddi fyrir og ég tek hjartanlega undir og við höfum reyndar mörg talað fyrir árum og áratugum saman, þetta er ekkert nýtt en hann hefur tekið þetta upp og það er lofsvert. Það er að samfélagið leitist við að taka þennan arð eða þennan hagnað, þennan ávinning, í lægri vöxtum, í lægri þjónustugjöldum, í rekstri á samfélagsbanka. Það finnst mér vera sjónarmið sem við þurfum að halda til haga og skoða og beina því til meiri hlutans að endurskoða afstöðu sína.

Það stórfenglega í þessu er náttúrlega að heyra fulltrúa ríkisstjórnarinnar koma upp í pontu og tala um hve hræðilega skaðlegt og vitlaust það er að reka banka á vegum ríkisins, en á sama tíma vera að stofna banka eða eiga hlut að bankastofnun suður í Asíu og ætla að setja þar 2,3 milljarða inn. Það á að gera í skömmtum að vísu, en bara prinsippið sker í augu í ljósi umræðunnar af hálfu ríkisstjórnarinnar um þau efni.

Það er margt sem ég vildi gjarnan ræða og snertir framgöngu ríkisstjórnarinnar en bíður umræðu um fjárlög, vegna þess að það sem við erum náttúrlega fyrst og fremst að tala um hér er yfirstandandi ár. Þar standa upp úr þær greiðslur sem við þyrftum að láta ganga til baka. Það bíður síðan fjárlagaumræðunnar að taka umræðu um skólakerfið, um heilbrigðisþjónustuna. Það hefur verið gert að hluta til í morgun, vakin athygli á löngum biðlistum og biðlistum sem lengjast, t.d. í liðskiptaaðgerðum. Ég heyrði það í þingsal í morgun og ég heyrði reyndar sögur af því prívat og persónulega hvaða vanda það veldur fólki. Við eigum eftir að ræða í dag um löggæsluna. Sumir vilja fara þá leið að styrkja hana með því að fá lögreglumönnum byssu í hönd, aðrir vilja hlúa betur að almennu löggæslunni. Ég er á þeim báti. En þetta er nokkuð sem bíður síðari tíma umræðu. Það er ekki langt í hana. Það verður sennilega í næstu viku að við tökum til við að ræða fjárlög fyrir komandi ár, fyrir árið 2016.