145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[12:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi síðustu orð voru orð að sönnu. Ríkisstjórnin hugsar bara um þá ríku. Ég held að þetta sé alveg rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ríkisstjórnin fyrri ætlaði að gera margt en gerði ekki. (VigH: Ætlaði.) Við gerðum breytingar á skattkerfinu í átt til jafnaðar. Við ætluðum að gera það og við gerðum það. Ég minnist þess að fyrsta verk mitt þegar ég kom inn í heilbrigðisráðuneytið í febrúar 2009 var að falla frá fyrirhuguðum sjúklingagjöldum sem ráðherra Sjálfstæðisflokksins hafði ákveðið þá.

Við ætluðum að gera það og við gerðum það. Það er staðreyndin.

Varðandi auðlegðarskattinn get ég upplýst hv. þingmann um að umræður voru um að framlengja hann en með breytingum, með því að laga ýmsa skavanka sem taldir voru á kerfinu í þeim anda sem hv. þingmaður bendir á. (VigH: Eftiráskýring.) Þetta er engin eftiráskýring, þetta er bara veruleiki. Ég er að segja sannleikann. Ég er að segja frá umræðum sem áttu sér stað, en það er sjálfsagt að taka þetta í fleiri ræðum við umræðuna fyrst formaður fjárlaganefndar leggur til að við tökum hressilega umræðu um þetta í dag. Ég hef allan daginn fyrir mér og get komið oft hér í ræðustól og mun að sjálfsögðu, hæstv. forseti, nýta mér þann rétt minn.