145. löggjafarþing — 47. fundur,  4. des. 2015.

vopnaburður lögreglunnar.

[14:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, fyrir að taka þetta mál upp og ég vil segja það í upphafi að ég er mjög sammála þeim áherslum sem komu fram í málflutningi hans. Reyndar sé ég ástæðu til að fagna einnig áherslum hæstv. ráðherra sem segir að hér séum við ekki að verða vitni að stefnubreytingu, hún sjái ekki fyrir sér að almennir lögreglumenn muni hafa vopn í hendi. Það finnst mér gott að heyra. Það er mjög mikilvægt að um þessi mál ríki samstaða, að umræðan um þau sé opin og það er nokkuð sem hæstv. ráðherra hefur sýnt að hún vill að sé.

Fyrr í vikunni fjallaði Fréttablaðið um vopnaburð lögreglunnar og tengdi hann vinnuvernd og vitnaði í Eyþór Víðisson löggæslufræðing sem segir, með leyfi forseta:

„Þróun á lögum og vinnuvernd hefur aukið ábyrgð vinnuveitenda. Vinnuveitendur eiga að gera allt til að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Aukið aðgengi að vopnum snýst að miklum hluta til um öryggi lögreglumanna.“

Það kann að vera rétt að einhverju leyti en ekki öllu. Ég tek undir með málshefjanda sem sagði: Leiðin til að styrkja lögregluna er að láta meira fé til hennar renna til að efla almenna löggæslu. Ég hef oft lagt áherslu á að ég hef viljað horfast í augu við þann veruleika að eftir hrunið skárum við niður til löggæslunnar um tæpa 3 milljarða á ári. Og það er rangt að úr því hafi verið bætt. Það var þverpólitísk samstaða (Forseti hringir.) um að bæta úr því og það eigum við að gera vegna þess að veik lögregla með vopn í hendi er varasöm lögregla. En við viljum öll og ég held að fyrir því sé ríkur þverpólitískur stuðningur á Alþingi styrkja almennu löggæsluna í landinu.