145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

framlagning stjórnarmála.

[15:15]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Til hvers er þá þessi þingmálaskrá? Er þetta óskalisti ríkisstjórnarinnar yfir mál sem væri gaman að leggja fram ef við hefðum hugsanlega tíma til þess? (Gripið fram í.) Þá finnst mér alveg eins gott að sleppa þessu. Og til hvers eru þá ráðherrarnir ef það er ekki þeirra hlutverk að koma í gegn pólitískum áherslumálum ríkisstjórnarinnar? Til hvers erum við þá með ráðherra? Ég held að ráðuneytin og fólkið þar geti alveg stýrt hinum daglega rekstri.

Ég spyr mig líka: Eru þingmenn endilega bestu ráðherraefnin? Ég er svolítið hrifin af því að taka fólk utan úr þjóðfélaginu sem er kannski með gráðu í verkefnastjórnun og kannski mannlegum samskiptum og hvað það er sem þarf til. En mér finnst þessi árangur mjög lélegur. Ég held að ég fari rétt með að þetta er sögulega lélegt. En kannski er pólitísk stefna þessarar ríkisstjórnar ekki meiri en þetta, hún þarf ekki að leggja nein mál fram eða menn treysta sér ekki til að koma neinum málum í gegn eða ég veit ekki hvað er í gangi. Mér finnst þetta ekki eðlilegt.