145. löggjafarþing — 48. fundur,  7. des. 2015.

upplýsingar um fjölda íbúða í byggingu.

[15:29]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir gott svar. Nú er það svo að það eru mjög stórir árgangar að koma inn á húsnæðismarkaðinn inn í þennan svokallaða 25–34 ára hóp. Núna eru um 6.700 á þeim aldri sem búa í foreldrahúsnæði eða 14% allra á þeim aldri, það er hækkun um þó nokkuð á síðastliðnum árum. Samkvæmt því ættu um 600–700 til viðbótar að detta inn í þann hóp á hverju ári. Það verður mjög áhugavert að sjá. Það eru margir mismunandi hópar, það eru líka aldraðir, stúdentar o.s.frv. sem kemur til með að vanta húsnæði á næstu árum.

Ég vil ítreka að það er ákveðin reglugerð í gangi sem felur í sér að sveitarfélög og fleiri aðilar (Forseti hringir.) hafa þá ábyrgð að tilkynna um í hvaða byggingarflokki og hversu margar íbúðir séu í gangi. Sá háttur (Forseti hringir.) virðist hafa mistekist og það sem hæstv. ráðherra er að stinga upp á er væntanlega breyting á því, ef ég skil rétt.