145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[14:16]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Það er með ólíkindum hvernig þessi liður kemur fyrir aftur og aftur. Mér hefur nú ekki fundist að hæstv. iðnaðarráðherra hafi svo yfirþyrmandi mikið af verkefnum að hún ætti ekki að geta náð að halda utan um þennan málaflokk, sem er ferðamannaiðnaðurinn hér á landi. Ég lýsi vonbrigðum með að sá liður komi hérna aftur og aftur. Það er ekki góður vitnisburður fyrir núverandi ríkisstjórn núna þegar við erum að fara að samþykkja lög um opinber fjármál þar sem við ætlum að plana fram í tímann og gera áætlanir og hafa stjórn á hlutunum, þá hafa menn ekki einu sinni stjórn á einum litlum lið sem heitir Framkvæmdasjóður ferðamannastaða.