145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[19:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel það skyldu þingmanna að segja satt og rétt frá hér í þessum ræðustól. Það var þessi ríkisstjórn sem hækkaði útvarpsgjaldið til RÚV eftir að fyrri ríkisstjórn ætlaði að skera það niður í 16.400 kr. árið 2014. Við skulum hafa það á hreinu og hætta að tala hér um þennan hálfsannleik.

Annað sem er hálfsannleikur í máli þingmannsins: Það var ágætt að hún birti þessa töflu á bls. 8. Þá kemur í ljós varðandi veiðileyfagjaldið, því vinstri flokkarnir eru alveg æfir yfir því að þessi ríkisstjórn hafi lækkað veiðigjaldið, að það kemur inn sem auknar tekjur hjá ríkissjóði í formi tekjuskatts. Í frumvarpi 2016 er gert ráð fyrir því að tekjur af veiðigjaldi séu 7.830 milljónir sem er nákvæmlega sama upphæð og fyrri ríkisstjórn innheimti í veiðileyfagjald árið 2012.

Ég spyr: Hvert er málið? Hér er slegið upp sem viðmiðunartölu 2013 13,5 milljörðum sem heilagri tölu. Þetta var kosningaár (Forseti hringir.) og þarna þurftu vinstri flokkarnir að sýna sig fyrir kjósendum því að þeir ætluðu alltaf að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu, gleymum því ekki. Við skulum tala hér um staðreyndir og takk fyrir þessa töflu.