145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Brynhildi Pétursdóttur kærlega fyrir ræðuna. Hér kveður aðeins við annan tón en hjá minni hluta fjárlaganefndar sem talað hefur hingað til. Ég er mjög ánægð með að hún deilir áhyggjum meiri hluta fjárlaganefndar af Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni eyðum við heilum kafla, eins og hv. þingmaður bendir á, í áhyggjur af þeirri þróun og þeim málum. Eins minnist hv. þingmaður á háskóla og framhaldsskóla, löggæslu og fangelsismál, samgöngur og ljósleiðaravæðingu, sem er nánast alveg samhljóða því sem er að finna í áliti meiri hlutans. Ég minni á það því að henni finnst lítið fjármagn fara í ljósleiðaravæðinguna, en það er nú kannski það sama og lagt var í Vodafone-samninginn hjá RÚV, svo það sé bara sagt.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á samninginn sem gerður var við Landspítalann og heilbrigðisráðherra, og stakk upp á því að fangelsismál tekin væru til endurskoðunar. Væri hv. þingmaður ekki tilbúin að taka út þann rekstur (Forseti hringir.) og rekstur hjá fleiri stofnunum hjá ríkinu í samvinnu við ráðuneytið til að finna út nákvæmlega hvað þær þurfa af fjármagni?