145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:02]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Við hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson höfum einmitt verið að ræða fangelsismálin því að staðan á Litla-Hrauni er mjög slæm og við erum ekki í þeirri stöðu að geta sett okkur nákvæmlega inn í fjármálin. En við höfum talað um hvort ástæða væri til þess að til dæmis Ríkisendurskoðun tæki út stöðuna á Litla-Hrauni vegna þess að Ríkisendurskoðun gerir auðvitað úttektir þar sem hún athugar hvort stofnanir geti sinnt skyldu sinni samkvæmt þeim lögum og reglum sem þeim er ætlað að fara eftir. En það má auðvitað líka hugsa um rekstrarúttektir. Það eru yfirleitt stjórnsýsluúttektir sem Ríkisendurskoðun gerir. Mér fyndist það vera af hinu góða ef við færum í fleiri úttektir. Við mundum þá sammælast um hvað við viljum gera og mundum reyna að fá óumdeilt fólk, ég veit ekki (Forseti hringir.) hvort það er hægt að orða það þannig, en við mundum passa okkur hverjir væru fengnir í verkið.