145. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:12]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það bara pirrar mig verulega að almannafé sé varið til að niðurgreiða húsnæðislán sumra alveg óháð eignastöðu. Ég held að skuldaniðurfellingin hafi verið að einhverju leyti tilfærsla frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins vegna þess að húsnæðisverð er miklu hærra á höfuðborgarsvæðinu og hlutfallslega fleiri þar fengu niðurgreiðslu. Hvort þetta er landsbyggðarvænt? Ég er auðvitað ánægð ef eitthvað er landsbyggðarvænt, en ég vil eftir sem áður hafa fagleg vinnubrögð. Ég vil að við séum með einhverja byggðastefnu og byggðaáætlun og vinnum eftir henni, en séum ekki með tilraunakennda bitlinga hingað og þangað. Mér hugnast það ekki.