145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Mér hefur orðið tíðrætt um vinnubrögðin varðandi breytingartillögur meiri hlutans og ríkisstjórnarinnar. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir að við höfum fengið margar heimsóknir, sérstaklega frá sveitarfélögunum, og vitum alveg að þörfin er víða mjög brýn. En ég hef ekki litið þannig á að það sem ég var að heyra í haust frá sveitarfélögunum sé eitthvað annað en við heyrðum í fyrra og hittiðfyrra.

Ég hef áhyggjur af því ef stjórnvöld í landinu og ráðherrarnir eiga ekki þetta sama samtal við fólkið í landinu, og hafa ekki tilfinningu fyrir því hvar þörfin er; ef fjárlaganefnd og meiri hlutinn á einhvern veginn að vera að redda ríkisstjórninni fyrir horn af því að hún hefur ekki sömu upplýsingar og við. Ég held að allir viti til dæmis að fjármagn til samgöngumála er allt of lítið. Ég þarf ekki sveitarfélögin til að segja mér það, en ég get alveg tekið undir að þetta er gott samtal sem við eigum.

Mér finnast vinnubrögðin við breytingartillögurnar ekki góð. Ég vil spyrja hv. þingmann: Telur hann að ráðherrarnir (Forseti hringir.) viti ekki hvernig málin standa í þjóðfélaginu og geti ekki gert fjárlagafrumvarp sem bregst við þar sem þörfin er?