145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mikilvægt að koma aðeins inn á það sem var verið að ræða um NPA og málefni fatlaðs fólks. Mér finnst afskaplega mikilvægt að við áttum okkur á því að NPA er komið til að vera og er bara eitt af úrræðum fyrir fatlað fólk og verður auðvitað að fjármagna það úrræði eins og önnur úrræði. Fólk sem er með NPA-samninga, það er ekki þannig að hægt sé að spara einhvern veginn með því að láta það ekki vera með NPA-samninga. Það mun alltaf þurfa einhver úrræði. Það mun alltaf þurfa einhverja þjónustu. NPA er því eitt af því sem þarf að fjármagna.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í opinberar framkvæmdir og fjárfestingar í innviðum. Hérna var lagt upp með og samþykkt í Alþingi 2012 fjárfestingaráætlun til þriggja ára sem var fjármögnuð að hluta með arði úr bönkunum og að hluta til af arði af fiskveiðiauðlindinni. Hún fól í sér stórkostlega innspýtingu í fjárfestingar í samgöngumannvirkjum og (Forseti hringir.) í ýmsum verkefnum úti á landi, eins og í sóknaráætlun landshluta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að ég skynja áhuga hans, og ég deili honum, á fjárfestingu í innviðum. Ég held að nauðsynlegt sé að ráðast í slíka fjárfestingu. Af hverju var ekki hægt að halda sig við það plan?