145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ólíkt ýmsum ræðum sem fluttar hafa verið má segja að ræða hv. þingmanns hafi verið tímamótaræða. Fram að henni hefði ég verið reiðubúinn til þess að styðja hann úr röðum sjálfstæðismanna til forustu í fjárlaganefnd og jafnvel sem fjármálaráðherra líka. En hér talaði áðan síðasti talsmaður á norðurhveli jarðar fyrir hinni svokölluðu vúdú-hagfræði. Það er enginn sem tekur lengur þann málstað nema hv. þingmaður. Hann tók dæmi. Hann segist minnast þess skeiðs þegar hér var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, sem ég reyndar sat í líka, (Gripið fram í.) og lækkaði skatt á fyrirtækjum og (Gripið fram í: Tók eftir … ) beitti (Gripið fram í.) sér fyrir ýmsum skattalækkunum og það leiddi til þess að það hér varð alveg gríðarlegt góðæri.

Á síðasta kjörtímabili sat ég líka í ríkisstjórn, en þá hækkaði ég skatta, og þá hófst lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Hvaða ályktun eigum við að draga af því? Við megum ekki velja okkur svona einhver sérstök dæmi í sögunni til að leggja út af. Ég er algjörlega andvígur þessari skoðun hv. þingmanns. En ég met skoðanir hans. Mér finnst hann hafa góðan vilja.

Mig langar til að spyrja hann út í afstöðu hans til þess hvernig er að takast hér til? Hv. þingmaður talaði um eftirlitsiðnaðinn og vísaði til skýrslu sem reyndar spannaði skeið þar sem flokkur hans var við völd og hann talaði um að 13.000 milljónir fari í þetta. Já, það er rétt, það er allt of mikið, en á þessu ári undir forustu Sjálfstæðisflokksins fara 700–800 milljónum meira í það. Hvað segir hv. þingmaður um það? Er Sjálfstæðisflokknum að takast upp?

Hv. þingmaður talaði um að kerfið bólgnaði út. Já, ætlar hv. þingmaður að líta á það sem ábyrgðarleysi af sjálfum sér ef hann mundi fara eftir sannfæringu sinni, væri hann hér staddur, og greiða atkvæði gegn því sem hann er í hjarta sínu á móti, sem eru þrjár nýjar stofnanir, embætti húsameistara ríkisins, stjórnstöð ferðamála og verið er að opna sendiráð sem ég lokaði í sparnaðarskyni? Þetta síðasta, þessi síðustu þrjú (Gripið fram í.) verk ríkisstjórnarinnar, ég spyr hv. þingmann: Treystir hann sér til að segja það að hann sé í hjarta sínu (Forseti hringir.) sammála þessu? Ef hann er það ekki, mundi hann greiða þessu atkvæði? Ætlar hann (Forseti hringir.) að vera eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem gengur svipugöngin (Forseti hringir.) og greiðir atkvæði með því sem hann er á móti?