145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:22]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það almenna sjónarmið mitt að ég er því fylgjandi að við förum með útdeilingu fjármuna inn í faglegan sanngjarnan farveg og það gerum við meðal annars í samgöngumálum með samgönguáætlun sem við ræðum á þingi þar sem við tökum einstaka verkþætti til skoðunar. Það sem ég er einfaldlega að segja er að ef við tökum allar ákvarðanir sem fram til þessa hafa verið teknar hér um smátt og stórt og færum það inn í ráðuneytin erum við að færa þetta fjær þinginu. Þegar það síðan gerist í ofanálag að það á að búa til einhverja faglega svokallaða nefnd með óvilhöllum mönnum til að hafa eftirlit með þinginu um að það fari nú örugglega að ábendingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að við megum ekki taka nema þetta háa prósentu að láni o.s.frv., þá erum við komin út á mjög hála vegu. Ég er alveg hissa á því (Forseti hringir.) að Alþingi ætli að samþykkja þau lög. Ég er alveg hissa á því.