145. löggjafarþing — 50. fundur,  9. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ef formaður fjárlaganefndar vill fara í síðasta kjörtímabilsleikinn þá er eflaust hægt að finna nokkrar ræður um fundarstjórn forseta og lengd fundar og vitna til þeirra. En ég hélt þó að við hefðum lagt þennan ósið nokkuð á hilluna og næturfundir heyrðu sögunni til og kemur á óvart ef forseti ætlar að halda fundi áfram inn í nóttina.

Það tekur þó auðvitað steininn úr þegar formaður fjárlaganefndar leyfir sér að koma hér og vera með ósvífni í garð þingmanna því þessu þingi var flýtt um einar þrjár vikur til að gefa fjárlaganefnd rúman tíma til að skila málinu hingað inn í þingsalinn. Og það er formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sem kemur með það nærfellt hálfum mánuði of seint af því að hún er búin að vera að burðast með milljarða niðurskurðartillögur sem var hafnað af ríkisstjórninni og ráðherrum hennar með öllu. Þetta tilgangslausa basl hennar veldur því að við þurfum nú að standa hér og sumum er jafnvel ætlað að tala inn í nóttina (Forseti hringir.) af því að vinnubrögðin hjá forustu fjárlaganefndar voru gersamlega óraunsæ og ekki í neinu samræmi við starfsáætlun þingsins.