145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

afturvirk hækkun bóta.

[10:46]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Alls staðar að af landinu berst okkur ákall frá fólki úr öllum flokkum til ríkisstjórnarinnar um að sýna öldruðum og öryrkjum þá sanngirni að kaup þeirra hækki afturvirkt frá sama tíma og allra annarra í landinu. Ég spyr félagsmálaráðherra hvort hún hafi ekki verið að berjast fyrir því að þetta yrði gert. Ég spyr félagsmálaráðherra hvort hún hafi ekki von um að þessi breyting náist fram fyrir 3. umr. fjárlaga. Eða eigum við að trúa því, virðulegur forseti, að aldraðir og öryrkjar eigi engan liðsmann í ríkisstjórninni sem berst fyrir þessu sjálfsagða réttlætismáli?

Ég bið hæstv. ráðherra að minnast þess að þegar ekki var góðæri, árið 2011, var hægt að forgangsraða pólitískt þannig að þessir hópar fengju hækkanir á sama tíma og aðrir. Ég bið ráðherrann að hætta að rífast við Landssamband eldri borgara og Öryrkjabandalagið um kjör þessara hópa, þau þekkja þau best. Prósentur segja lítið í því samhengi, lífeyrisþegar hafa fengið liðlega 5 þús. kr. hækkun á þessu ári, við alþingismenn höfum fengið 60 þús. kr., ráðherrar yfir 100 þús. kr.

Allur slíkur samanburður er í sjálfu sér aukaatriði því að hann er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að þetta snýst ekki um peninga eða prósentur, þetta snýst um að aldraðir og öryrkjar fái sömu meðferð og allir aðrir í landinu, frá sama tíma og með sama hætti. Ég vona að félagsmálaráðherra hafi góðar fréttir að færa okkur í þessu efni eða geti að minnsta kosti glætt vonir manna um að það verði leiðrétt sem fólk úr öllum flokkum sér (Forseti hringir.) að er ranglátt.