145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:29]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir þetta andsvar. Hann fjallar annars vegar um fyrri hluta ræðunnar og hins vegar um seinni hluta ræðunnar. Það kom fram að hann væri ánægður með fyrri hlutann en ekki seinni hlutann. Það er einmitt það sem hryggir mig, að þingmaður Sjálfstæðisflokksins skuli ekki hafa verið ánægður með seinni hlutann þegar ég er að ræða í þeim kafla um kjör aldraðra og öryrkja, þegar ég er að tala um þessa afturvirkni sem við erum að tala um að eigi að ganga yfir aldraða og öryrkja eins og alla aðra þjóðfélagshópa sem hafa verið að fá kjarabætur.

Ég hefði vonað að sjálfstæðismenn sæju að sér, og vona það enn, og komi til baka og að við náum sátt um þetta deilumál á Alþingi, að gera betur. Ekki gefst tími til þess að fara inn í það núna það sem hann nefndi vankanta á tryggingakerfinu. Það verður ekki gert í stuttu andsvari. Vafalaust eru þeir margir. Ég tek sem dæmi, gerði í ræðu minni áðan, af reiknivél Tryggingastofnunar að það er mjög aðgengilegt og þægilegt að vinna með þá reiknivél til að sjá hvernig aldraðir og öryrkjar hafa það. Þetta reiknar út skattana, þetta reiknar það út að þessi einstaklingur sem ég tók dæmi um í ræðu minni borgar tæplega 30 þúsund í skatt af þessum 225 þúsund sem hægt er að ná í gegnum almannatryggingakerfið.

Við þurfum að ræða hvernig á að gera þetta. Við þurfum að ræða það líka hvernig þetta verður til framtíðar, eins og þingmaðurinn er ef til vill að spyrja mig um. Þegar ungt fólk fer að taka ellilífeyri á komandi árum, sem hefur borgað lengi í lífeyrissjóð, verður samspilið allt annað en það er í dag. Við erum að tala hér um stóra þjóðfélagshópa sem áttu ekki tækifæri á að greiða í lífeyrissjóði á upphafsárum þeirra. Ég get tekið dæmi norðan úr landi, (Forseti hringir.) karlar sem unnu á síldarplani borguðu í lífeyrissjóð en konurnar sem unnu í akkorði við að setja síldina ofan í tunnuna greiddu ekki í lífeyrissjóð.