145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum að staða skólanna er ekki góð. Ég held að meira þurfi til en þær fjárveitingar sem hér eru settar. En ég er líka að tala til dæmis um 25 millj. kr. tímabundið framlag til Austurbrúar. Ég hugsa að við séum sammála um það að við séum hrifnar af því verklagi sem þar er í gangi. En þar hefur verið mikill halli. Og svo segir í nefndaráliti meiri hluta: „Brýnt er að stofnaðilar láti gera úttekt á starfseminni sem fyrst í ljósi fjárhagsstöðu stofnunarinnar.“

Þá spyr ég: Af hverju er þessi úttekt ekki gerð áður en hv. meiri hluti tekur ákvörðun um til dæmis að veita 25 millj. kr. í það verkefni? Eins eru 15 milljónir sem eru til að rétta af rekstrarhalla Snorrastofu. Það sem ég er að segja er að það eru svo margar stofnanir þarna úti sem glíma við rekstrarvanda. Og að ákveða með þessum hætti hver á að fá aukainnspýtingu og hver ekki er flókið mál. Það þarf að gæta jafnræðis. Það finnst mér eitt mikilvægasta hlutverkið sem við erum hérna í, að reyna að tryggja jafnræði þegar við erum að útdeila þeim (Forseti hringir.) takmörkuðu fjármunum sem við höfum.