145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[21:13]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já. Hv. þingmaður hefur sannfært mig. Ég ætla ekki að ræða meira um þetta mál.

En það er eitt sem við getum rætt um í tengslum við þessa fjárlagagerð. Það er aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni. Þá erum við að tala um heilsugæsluna. Ég er persónulega kannski ekki endilega hrædd við það að einkarekstur sé í gangi svo framarlega sem það er eftirlit og við viðurkennum það líka að mikill einkarekstur er í gangi í heilbrigðisþjónustunni í dag, allir sérfræðilæknarnir, ég veit ekki hvort við eigum að tala um SÁÁ sem einkarekstur en þó, næstum því.

Telur hv. þingmaður að ástæða sé til að hafa áhyggjur af þessu? Ég get tekið undir þá gagnrýni sem hefur komið fram að þetta hafi í sjálfu sér ekki verið rætt. Þessari stefnumótun er einhvern veginn laumað inn í fjárlagafrumvarpið. Það er eðlilegt að umræða fari fram um þetta í þingsal og þá ekki bara í tengslum við fjárlagagerðina. Telur hv. þingmaður að þetta sé eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af, að einkarekstur aukist í heilsugæslunni?