145. löggjafarþing — 51. fundur,  10. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[22:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég spyr nú bara: Hvað er Alþýðubandalagið? Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson virðist vita meira um það en ég enda hef ég aldrei verið þar (Gripið fram í.) eða haft á því sérstakan áhuga. (Gripið fram í.)

Varðandi einkarekstur í heilsugæslu, með mjög góðum árangri, segir þingmaðurinn. Hvað vorum við að gera í fjáraukanum? Við vorum að bæta inn fé í Heilsugæsluna Salahverfi og Læknavaktina af því að þær stöðvar eru með miklu hagfelldari samninga en fjármögnun á heilsugæslunni í landinu. Það hefur verið rætt um breyttar fjármögnunarleiðir og mér finnst mjög eðlilegt að við skoðum (Gripið fram í.) hvernig við tryggjum að heilsugæslan verði sterkari. Áður en við erum búin að styrkja stoðir heilsugæslunnar, greina og ákveða hvað við viljum kaupa og hvernig og hvar er tómt mál að tala um að fara út í einkarekstur (Forseti hringir.) því að það þýðir einkavinavæðing, það þýðir að við erum að grafa enn (Forseti hringir.) frekar undan hinni opinberu heilbrigðisþjónustu á Íslandi.