145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Frú forseti. Ég er að koma að þessari umræðu núna, á síðustu tveimur, þremur klukkutímunum, í fyrsta skipti í þessari viku vegna þess að ég hef verið staddur erlendis á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, en hef haft tækifæri til að fylgjast með þeirri umræðu sem hér hefur farið fram í gegnum vefmiðla og fagna því tækifæri sem mér býðst óvænt, að flytja ræðu um fjárlög ríkisstjórnarinnar.

Ég vil fyrst segja að í fjárlögunum er kannski mesti vandinn fólginn, þ.e. að stjórna landinu. Það er ekki auðvelt mál að setja saman fjárlög. Það er ekki auðvelt mál að vera við ríkisstjórn vegna þess að sú breyting verður á högum stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka þegar þeir komast í ríkisstjórn að skyndilega standa á þeim öll spjót. Fjölmargir aðilar koma og telja sig hafa borið skarðan hlut frá borði og það er mikil samkeppni um það fjármagn sem í boði er. Það er æskilegt fyrir alla stjórnmálamenn að hafa þetta alltaf í huga að mikill vandi fylgir þeirri vegsemd sem felst í því að vera með meiri hluta í þinginu og þar með meiri hluta í fjárlaganefnd og meiri hluta þegar kemur að fjárveitingum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Ég ætla ekki að gera lítið úr því.

Það sem mér hefur hins vegar fundist hvimleitt í þeirri umræðu sem farið hefur fram, bæði þetta haustið og síðustu ár og þau ár sem ég hef verið á þingi, er sá gríðarlegi átakakúltúr sem einkennir umræðuna og að mínu mati náði ákveðnu lágmarki í umræðunni um fjárframlög til Landspítalans, þegar stjórnandi spítalans hafði komið á fund nefndarinnar og var í kjölfarið sakaður af formanni fjárlaganefndar um að hafa gert tilraun til að beita hana andlegu ofbeldi.

Það er auðvitað ekki í mínum verkahring sem þingmaður að gefa þingmönnum eða formönnum nefnda einkunnir fyrir framkomu, kurteisi eða dónaskap eða neitt slíkt. Þeir vita það sem fyrir slíku verða og þeir sem verða vitni að slíku hvað þar er á ferðinni. En það er verra mál þegar farið er rangt með og þegar gert er lítið úr erindum stjórnenda stofnana. Ef okkur á einhvern tíma að takast að setja saman rekstur ríkisins og ákveða hvernig við ætlum að gera það með eins skynsamlegum hætti og fara jafn vel með peningana og við getum mögulega getum, þá verðum við að geta átt samtal. Til að geta átt samtal verðum við að geta treyst því að sá sem við erum að tala við sé að fara með rétt mál, það sé ekki verið að halla réttu máli og ekki sé verið að setja umræðuna í farveg sem kemur málinu ekkert við. Án þess að ég fari út í einhverja einkunnagjöf um hvort einhver hafi verið dónalegur eða eitthvað slíkt, þá er auðvitað ekki bjóðandi að formaður fjárlaganefndar, í þeirri umræðu sem fram fór í haust, telji erindi gesta á einhvern hátt snúast um sjálfa sig og hún sé á einhvern hátt eitthvert fórnarlamb einhvers ofbeldis í þeim efnum. Það er ekki boðlegur málflutningur og það er einfaldlega ekki hægt að fara í þessa umræðu án þess að vekja athygli á því að þetta er ótækt, algerlega kristaltært í mínum huga að svona málflutningur er fyrir neðan allar hellur og er hluti af þeim vanda sem við glímum við í stjórnmálum á Íslandi, þ.e. að geta ekki rætt saman almennilega, búið til einhverja sáttafleti á málum sem við er að etja. Ég held að hvergi séu jafn mikil tækifæri og þegar kemur að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og þeim nauðsynlegu ráðstöfunum sem þarf að gera til að koma okkur aftur á þann stað að við getum verið stolt, ánægð og örugg með þá þjónustu sem í boði er eftir þau ósköp sem yfir okkur hafa gengið. Ég held að það sé hvergi jafn gott tækifæri til að búa til þverpólitíska sátt, aðgerðaáætlun til einhvers tiltekins tíma um uppbyggingu, um nýjan landspítala, um viðhald og rekstur.

Hvaða upphæðir eru það sem við erum að tala um þegar kemur að því að formaður fjárlaganefndar tali um andlegt ofbeldi af hálfu stjórnenda Landspítalans? Hann sagði að 2,8 milljarða þyrfti til að halda rekstrinum í horfinu, 2,8 milljarða. Í heildarsamhengi fjárlaga Íslands eru það ekki stórkostlegar upphæðir og örugglega með einhverjum hætti hægt að finna millileið eða lendingu sem flestir geta verið sáttir um. Nei, það var ekki vilji til þess hjá meiri hluta fjárlaganefndar.

Það er athyglisvert að í ljósi þess að í síðustu þrennum fjárlögum hefur núverandi ríkisstjórn og stjórnarmeirihluti verið gagnrýndur fyrir að geta ekki, vera fullkomlega fyrirmunað að búa til áætlun, plön, útgjaldaáætlun, uppbyggingaráætlun þegar kemur að innviðum ferðamannastaða. Í fyrstu fjárlögunum voru stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir að vanáætla, ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að gert hafi verið ráð fyrir um 120 milljónum á fjárlögum sem síðan var leiðrétt í fjáraukalögum upp á 380 milljónir og svo aftur þar á eftir upp á enn hærri upphæð og gott ef það var ekki bara síðast upp á 850 milljónir á fjáraukalögum. Það er allt í lagi af hálfu ríkisins þegar ríkið eða stjórnarmeirihlutinn nær ekki utan um rekstur á tilteknu sviði að slumpa á það eftir á. Það er allt í lagi. En þegar kemur að stjórnendum, rekstraraðilum opinberra stofnana, rekstraraðilum þeirra stofnana sem við erum sammála um, ég held öll eða sem flest, að séu meðal mikilvægustu stofnana samfélagsins, þá má hvergi fara fram úr neinu, þá skulu menn vera búnir að reikna þetta alveg upp á hár. Og ef þeir fagaðilar koma á fund fjárlaganefndar og halda því fram að það vanti upp á tæpa 3 milljarða, þá er það sagt vera andlegt ofbeldi sem ekki komi til greina að láta undan. Það vill svo til, af því að ég er í þessum samanburði, að það eru svona eftiráleiðréttingar sem núverandi stjórnvöld hafa ráðist í þegar kemur að innviðauppbyggingu ferðamannastaða og Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, það heggur nærri þeirri upphæð sem farið var fram á í þessum samningi.

Umræðan hefur síðan þróast frá því að þessi kafli fjárlagagerðarinnar gekk um garð yfir í einhverja sögulega lágkúru sem birtist í grein hæstv. forsætisráðherra í Fréttablaðinu í morgun þar sem hann svarar grein Kára Stefánssonar, læknis og vísindamanns, sem hefur gagnrýnt harðlega forgangsröðun íslenskra stjórnvalda undanfarið. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég hef verið mjög ánægður með innkomu Kára Stefánssonar á þennan vettvang og ábendingar hans og það aðhald, gagnrýni og þátttöku sem hann hefur sýnt í umræðum um heilbrigðismál á Íslandi. Ég held að það endurspegli að mörgu leyti áhyggjur stórs hluta almennings af þeirri stöðu sem upp er komin. Auðvitað er það þannig að jafn litríkur karakter og Kári Stefánsson setur fram gagnrýni sína með kannski afar stórkarlalegum hætti, en það er hans réttur sem þátttakandi í lýðræðisumræðu á Íslandi að gera það. Efnislega er það alveg rétt sem hann er að segja. Það hefur verið í gangi mjög alvarlegt fjársvelti á heilbrigðiskerfi Íslendinga og það er umhugsunarefni hvernig það birtist okkur í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, hvernig fara eigi með meidda og sjúka í samfélaginu. Það er áhyggjuefni.

Auðvitað er það fagnaðarefni þegar hæstv. forsætisráðherra sér síðan ástæðu til að taka þátt í umræðunni, en það verður þá að vera á því plani sem mark er takandi á. Það verður að vera sæmandi forsætisráðherra þjóðarinnar. Það er ekki hægt að sætta sig við að umræðan sé á því plani sem hæstv. forsætisráðherra gerðist sekur um í dag.

Ég er mikill aðdáandi stjörnustríðsmyndanna, hef fylgst með þeim nánast alla mína ævi og hef mjög gaman af atriðum þar sem riddarar í slíkum bíómyndum nota hinn svokallaða mátt. Þeir sem eru bestir í honum geta veifað höndunum einhvern veginn framan í verði og sagt við þá: Hér þarf enginn að sýna skilríki. Þá trúir vörðurinn því að enginn þurfi að sýna skilríki og þeir komast fram hjá verðinum. Með þeim ótrúlega hætti geta þeir talið fólki trú um allt milli himins og jarðar.

En það er engu líkara, í þeirri grein sem hæstv. forsætisráðherra birti í dag, að hann telji sig einhvern veginn handhafa þessa máttar, hann geti sagt við íslensku þjóðina: Það er verið að vinna frábært verk. Ríkisstjórn Íslands er að standa sig ótrúlega vel þegar kemur að rekstri heilbrigðiskerfisins og uppbyggingu Landspítalans.

Nú er það þannig að í orði hefur núverandi stjórnarmeirihluti sagst styðja það að menn ráðist í stórfellda uppbyggingu. Samt sem áður hefur hæstv. forsætisráðherra, þó svo fyrir liggi margra ára vinna og fjöldi úttekta á staðsetningu nýs Landspítala, lýst því yfir á þessum síðustu stigum í aðdragandanum að því að ný uppbygging hefjist, að skoða þurfi staðsetninguna aðeins betur, þótt allir séu sammála um að ráðast þurfi í þessa uppbyggingu, þá þurfi menn samt að taka annan rúnt á þessari staðsetningu.

Það vill svo til að ekki verður hægt að taka fyrsta hluta byggingar nýs Landspítala í gagnið fyrr en sjö árum eftir að fyrsta skóflustungan er tekin. Það þýðir að þar sem fyrsta skóflustungan yrði tekin á morgun færi í gagnið 2022, þannig að hver einasti dagur, hver einasti mánuður og hvert einasta ár sem tafir verða um í þessu máli færir okkur nær því að heilbrigðiskerfið, Landspítalinn eins og hann er uppbyggður núna fellur um sjálfan sig. Það er að mörgu leyti hægt að líkja Landspítalanum, aðalsjúkrahúsi landsmanna, við heimilisbíl sem menn hafa reynt að halda við eftir fremsta megni og eins lengi og hægt er. Allir þeir sem hafa, eins og ég hef reynt, átt gamlan bíl og reynt að halda honum í rekstri lengi vita að að því kemur að ekki svarar kostnaði að gera við hann. Það kemur að því að það verður að kaupa nýjan, eins og hv. þm. Brynjar Níelsson benti á af sinni alkunnu snilld. Það er ekkert annað í stöðunni að gera, eða þá að snúa sér að einhverri annarri þjónustu. Það er staða sem við getum því miður ekki látið koma upp þegar kemur að heilbrigðiskerfinu. Við getum ekki látið bílinn hrynja, við getum ekki komið þessu kerfi á þann stað að það sé ekki nothæft lengur vegna þess að menn hafi ekki sinnt uppbyggingu. Menn hafa ekki sinnt viðhaldi og menn hafa ekki staðið fyrir aðgerðum til að tryggja að stemmt sé stigu við fólksflótta úr þeim stéttum sem byggja upp þetta kerfi. Meginverðmætin í því er fólkið á bak við það, þótt allir viti það síðan að þar eru hlutir fyrir utan sem eru í ólagi og verða að fá einhvers konar leiðréttingu. Húsnæði Landspítalans hefur verið í umræðunni vegna raka, myglu og leka og alls konar óhagræðis sem felst meðal annars í því að spítalinn er rekinn í mörgum byggingum á nokkrum stöðum í borginni.

Það er gömul saga og ný og óþarfi að tíunda það eitthvað meira hér, en það er átakanlegt að verða vitni að því að menn séu ekki með sérstaka tilraun, með eitthvert sérstakt átak eða útspil af hálfu stjórnarflokkanna til að ná sátt um þennan málaflokk, til að búa til einhvers konar áætlun til lengri tíma, hætta að þæfa málið eins og hæstv. forsætisráðherra gerir ítrekað, hætta að flækjast fyrir málinu og reyna að nota þetta mál sem sýnidæmi um það hvernig við getum komið íslenskri stjórnmálaumræðu og íslenskum stjórnmálum upp úr þeim lággróðri og upp úr þeirri lágkúru sem hún hefur verið í á alla kanta allt of lengi. Hvað þurfum við að gera til að komast upp úr þessu? Hvernig getum við gert það með betri hætti? Það er svo sem búið að fara margoft yfir það. Við getum gert það með því að leggja fram drög að fjárlagafrumvarpi með miklu lengri fyrirvara. Með því að vanda vinnuna. Með því að fá fleiri að ákvarðanatöku. Með því til dæmis að gera þetta ekki eins og þetta var gert núna í haust þegar fjárlögin komu fram og lögð fram af hæstv. fjármálaráðherra, en síðan er það eiginlega hæstv. fjármálaráðherra og fjármálaráðuneytið sjálft sem kemur með umfangsmestu breytingartillögurnar við eigið frumvarp. Er ekki eitthvað að þeirri framkvæmd þegar ráðuneyti eftir margra mánaða vinnu leggur fram frumvarp, kemur svo aftur með breytingartillögu við eigið frumvarp og svo horfum við líka framan í margvíslegar breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar?

Það er ekki við öðru að búast en að menn séu fastir í átakafarvegi þegar svona er á málum haldið. Það er ekki við neinn annan að sakast í svona megindráttum en verkstjóra ríkisstjórnarinnar. Það er nefnilega þannig ef verkstjórinn er lélegur, sem ég vil halda fram að sé í þessu tilfelli, ég held að núverandi forsætisráðherra sé sögulega lélegasti forsætisráðherra lýðveldisins. Ég held að við höfum aldrei í stjórnmálasögu Íslands haft jafn vondan verkstjóra fyrir forsætisráðherra og nú. Það er skoðun mín og ég get fært fyrir því margvísleg rök.

Þau fyrstu eru að alger skortur er á samtali. Það er alger skortur á því að reyna með einhverjum hætti að færa stjórnmálin upp úr þeim farvegi sem þau hafa verið í. Í þessari viku hefur maður horft framan í það að forsætisráðherrann kemur sérstaklega í viðtal á útvarpsstöð til að segja það eitt að hann hafi hlustað á annan stjórnmálaforingja vera í viðtali á sömu útvarpsstöð og það sé vitlausasta útvarpsviðtal sem hann hafi heyrt. Þetta er í anda svars við fyrirspurn frá hv. þm. Björtu Ólafsdóttur sem hún bar fram um veiðigjöld í síðustu viku sem hæstv. forsætisráðherra sagði að væri vitleysisfyrirspurn.

Þegar menn eru lélegir og jafn lélegir í rökræðu og hæstv. forsætisráðherra er, þá verða allir þeir sem spila með honum í liði lélegir, líka hæstv. fjármálaráðherra sem að mínu mati hefur burði til að vera mjög frambærilegur og góður stjórnmálamaður, sýnir oft mjög góða takta. En með svona fyrirliða, í svona liðsheild verður hann lélegur. Hann kemur með svar við spurningu hér í þingsal stuttu síðar frá öðrum hv. þingmanni og segist eiginlega ekki getað svarað slíkum delluspurningum sem fram koma. Hann hagar sér líka eins og verkstjórinn. Hann þarf að sýna sömu viðleitni í baráttu sinni við stjórnarandstöðuna í þinginu. Ég man ekki til þess að hafa heyrt svona orðfæri hér og maður hugsar með sjálfum sér: Á hvaða leiðangri eru menn þegar þeir ætla að taka þátt í að svara umræðum með þessum hætti? Niður á hvaða plan eru þeir sem stýra landinu að færa umræðuna ef þetta er svarið? Því er þá ekki bara gerð tilraun til að útskýra skoðanir sínar? Af hverju er ekki nóg að segja: Ég er nú ósammála því sem fram kom í þessu útvarpsviðtali. Eða, ég er ekki sammála forsendum þeirrar spurningar sem var lögð fram? Þurfa menn að koma hérna fram og halda því fram upp í opið geðið á mönnum sem koma með spurningar í þingsal Alþingis að þeir séu bara með eitthvert dellumakk? Það sé bara einhver vitleysa sem menn eru að spyrja um.

Því miður hendir það jafn skemmtilega þingmenn og hv. þm. Brynjar Níelsson þegar hann er með verkstjóra eins og hæstv. forsætisráðherra, að það urðu eiginlega hálfbjánalegar umræður hérna í vikunni þegar hann bar saman aðbúnað og aðstæður, þann aðbúnað sem núverandi ríkisstjórn eftir 5–6 ára hagvaxtarskeið býr öryrkjum og lífeyrisþegum, bar það saman við aðbúnað og aðgerðir sem ríkisstjórn sem tók við á árinu 2009 bjó þeim sömu hópum í kjölfarið á stærsta efnahagshruni þjóðarinnar, þegar Íslendingar höfðu glatað efnahagslegu sjálfstæði sínu og urðu að setja saman fjárlög ár eftir ár, ekki með tugum milljarða niðurskurði heldur hundruð milljarða niðurskurði í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og segja síðan: Hvað gerðuð þið? Þið voruð ekkert verri en við. Þetta er algerlega fráleitur samanburður og fráleitur málflutningur. Ég kenni því fyrst og fremst um að hv. þm. Brynjar Níelsson er í afar slæmum félagsskap. Það þarf að gera eitthvað í því, reyna að koma honum út úr þessu og koma íslenskum stjórnmálum líka út úr þessum lággróðri sem þau eru í undir forustu þessara manna.

Ég hefði trúað því eftir þessa viku, eftir að hafa fylgst úr fjarlægð með umræðunni, að ríkisstjórnin gæti allt eins hafa hrökklast frá þegar ég lenti í dag eftir að hafa komið frá París. Ég man ekki til þess að nokkur ríkisstjórn hafi átt jafn slæma daga og núverandi ríkisstjórn hefur átt síðustu daga. Það er ekki tilviljun. Það gerist ekki af sjálfu sér. Menn fá ekki greinar á sig frá mönnum eins og Kára Stefánssyni bara út af því að Kári Stefánsson vaknaði í vondu skapi þann daginn. Það er ekki samdóma álit alls almennings að ríkisstjórnin sé ekki að standa sig og forgangsraða nægilega vel í heilbrigðismálum bara út af engu. Ég held að það hafi gerst í þessari viku sem hefði náttúrlega átt að gerast fyrir löngu að stór meiri hluti þjóðarinnar byrjaði að telja niður dagana þar til þessi vonlausa ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra með sína ömurlegu pólitík og sína ömurlegu umræðu fari frá.

Ég veit að mín orð eru stór hér. Það er í raun og veru ekki lengur hægt að una því sem frá henni kemur, hvorki efnislega né í framkomu í þingsalnum. Það er umhugsunarefni að við skulum vera með ákveðnar reglur og hefðir til að viðhalda ákveðinni kurteisi í mannlegum samskiptum, eins og að ávarpa ráðherra sem hæstvirta og aðra þingmenn sem háttvirta, til að það séu svona lágmarkskurteisisreglur þannig að menn séu ekki bendandi fingri framan í hver annan og kallandi hver annan öllum illum nöfnum. En þegar það gerist síðan ítrekað, trekk í trekk í umræðunni um þessi mál hérna, um stærstu mál samfélagsins að sjálfur forsætisráðherrann hagar sér eins og krakki í ræðum og riti, þá er það einfaldlega ekki boðlegt og þá getur maður ekki lengur látið eins og það sé eðlilegt og tekið þátt í því án þess að benda á það nákvæmlega. Þetta er óboðlegt. Þetta er óboðleg framkoma, þetta er óboðlegur málflutningur, hann er ómálefnalegur og hann litar öll störf ríkisstjórnarinnar, þessi ömurlega og lélega verkstjórn sem hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson býður okkur upp á trekk í trekk. Þess vegna er ríkisstjórnin í ógöngum. Þess vegna eru lausatök alls staðar. Þess vegna sjáum við ótrúlega hluti gerast, til dæmis að hinum og þessum er kippt inn í ráðuneytið til að sjá um hin og þessi mál, alls konar samningar eru gerðir fram og til baka til að búa til stefnu í hinum og þessum málum sem síðan eru birtir þinginu eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Hvernig var stefna hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ferðamálum búin til? Tók pólitíkin í landinu þátt í því? Nei. Hér birtist bara stefna, birtist bara ný stofnun, Stjórnstöð ferðamála. Reyndar hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ferðast svo mikið á þessu kjörtímabili að ekki er vanþörf á sérstakri stjórnstöð ferðamála, en þá aðeins sérstakri stjórnstöð ferðamála hennar vegna þess að ferðalögin hafa verið slík. Það er ekki hægt að búast við því að við færumst eitthvað framar þegar svona er haldið á málum. Stjórnmálin á Íslandi verða áfram léleg meðan stjórnendurnir haga sér með þessum hætti. Það er ekki hægt að búast við því að menn breyti sér einhliða. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til stjórnarandstöðu, til stjórnarandstöðuflokka, til flokka í minni hluta að þeir láti bjóða sér svona framkomu ítrekað, aftur og aftur og aftur og séu meðvirkir með svona ömurlegri stjórnsýslu sem birtist í því að forsætisráðherra tekur til sín alls konar stjórnsýsluverkefni sem hann hefur sérstakan áhuga á.

Hvað er að frétta af þeirri klásúlu í nefndaráliti meiri hlutans í fjárlaganefnd um að taka eigi tillit til hugmynda Guðjóns Samúelssonar þegar kemur að uppbyggingu á Alþingisreit? Hefur meiri hluti fjárlaganefndar með það að gera? Er meiri hlutinn einhvers konar endurspeglun á þeim skrýtnu hugmyndum sem koma úr kolli hæstv. forsætisráðherra? Er bara nóg fyrir hæstv. forsætisráðherra að tala um þær fáránlegu hugmyndir sínar að koma með 100 ára gamlar teikningar og byggja í miðborg Reykjavíkur, á Alþingisreitnum, til að meiri hluti nefndarinnar, ekki bara hans eigin flokksmenn, heldur grandvarir þingmenn sem eiga langa sögu í þinginu, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, taki gagnrýnislaust undir þetta? Er hann aðdáandi Guðjóns Samúelssonar líka? Hvers lags eiginlega er þetta? Hvaða lágkúra er þetta? Hverjum dettur þetta í hug?

Síðast þegar ég vissi, af því að ég sit í hv. forsætisnefnd, var þetta verkefni á sviði forsætisnefndar. Síðast þegar ég vissi voru húsafriðunarmál vistuð á tilteknum stað. Stjórnsýslan var byggð þannig upp að búið var að gera ráð fyrir því að þeir sem þekktu til þess málaflokks og hefðu til þess sérstaka menntun fjölluðu um húsafriðunarmál. Nei, nei, það gerðist mjög framarlega á kjörtímabilinu að málaflokki sem hét græna hagkerfið var breytt í gluggalækkun Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hæstv. forsætisráðherra, og honum fengin þau völd að geta með einhverjum skipunum skrifað aftan á umslag og breytt alls konar hlutum, ákveðið hitt og þetta, búið til bara einhverja sérstaka húsafriðunardeild í forsætisráðuneytinu. Þetta er óboðlegt, þetta er lélegt og er ekki til þess fallið að bæta stjórnmálin á Íslandi.

En það styttist sem betur fer í kosningar á Íslandi og það styttist í að ný ríkisstjórn komi vegna þess að það er einfaldlega þannig að engin ríkisstjórn þolir það að vera óvinsæl í langan tíma og engin ríkisstjórn lifir það að fara óvinsæl inn í kosningar. Þegar menn stjórna með þeim hætti sem hér er gert, þá munu menn auðvitað falla. En því miður, mikill tími og mikil verðmæti fara forgörðum vegna þess hversu illa er á málum haldið og hversu óvandað allt er gert sem kemur frá ríkisstjórninni.

Við það að fylgjast með umræðunni úr fjarlægð, sjá þær fyrirsagnir og þær ræður sem fluttar hafa verið, þá blöskrar manni að enn einu sinni skuli vera unnið að málinu með þessum hætti, alveg sama hvað á gengur, meira að segja þannig að ýmiss konar verkefni sem ákveðið var á síðasta kjörtímabili að ættu ekki að vera á skrifborðum þingmanna heldur í faglegum farvegi, þau eru að koma aftur inn í þingið. Aftur eru þingmenn farnir að möndla með einhverjar styrkbeiðnir og annað slíkt, útdeilingu fjármagns til hinna og þessara verkefna, þannig að þetta fer allt saman í hringi. Allar lagfæringar sem eru gerðar koma með einhverjum hætti aftur til baka vegna þess að alger skortur er á framtíðarsýn. Það er alger skortur á að menn horfi til lengri tíma og því fer sem fer.