145. löggjafarþing — 52. fundur,  11. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[20:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þessa yfirgripsmiklu og málefnalegu umræðu um fjárlög fyrir komandi ár, sem er auðvitað fullt tilefni til. Hér er á ferðinni mikilvægasta frumvarp sem þingið fær til umfjöllunar á hverju ári og snertir alla þætti þjóðlífsins. Það er því ástæða til að þakka líka fjárlaganefnd fyrir þá miklu vinnu sem hún hefur á undanförnum vikum og mánuðum lagt í að reyna að gera frumvarpið betur úr garði en það var þegar það kom hingað inn enda var að ýmsu leyti ekki vanþörf á. Það endurspegla einar 300 breytingartillögur nefndarinnar og er ástæða til að taka það fram að þar er að finna margar ágætar tillögur sem sannarlega er vert að styðja við afgreiðslu frumvarpsins að lokinni 2. umr.

Það hefur verið mikilvægur þáttur í fjárlagagerð að fá hingað gesti hvaðanæva að til að benda á það sem betur megi fara í fjárlögum fyrir komandi ár og gefa sveitarstjórnum um landið líka færi á því að benda á það sem taka þurfi á í héraði og á hvað þyki halla. Auðvitað hafa fjárlaganefndarmenn, einkum stjórnarmeirihlutans, verið misatkvæðamiklir. Tillögurnar sem snúa að Norðvesturkjördæmi eru nokkuð fyrirferðarmiklar þetta árið og er engin ástæða til að amast við því enda er full ástæða til, eftir lítinn hagvöxt á stórum svæðum þar, að taka til hendinni núna þegar betur árar í ríkisrekstrinum.

Hafandi sagt þetta verður að gera alvarlegar athugasemdir við ýmislegt í verklagi fjárlaganefndar, ekki síst forustu nefndarinnar. Þar er fyrst til að taka hversu óhönduglega hefur verið staðið að öllum áætlunum um starfið og hversu óhóflega langan tíma þessi vinna hefur tekið á haustþinginu. Við réðumst í þær breytingar að flytja þinghaldið fram um tæpan mánuð og fá fram öll fylgifrumvörp fjárlagafrumvarpsins í þingbyrjun til að gera forustu fjárlaganefndar kleift að skipuleggja starfið og ljúka því á sæmilegum tíma. Það hefur ekki gengið eftir. Þessi rúmi mánuður dugði ekki til að ljúka verkefninu sem nefndin hafði með höndum heldur var farið tíu daga fram yfir þann verktíma sem nefndinni var áætlaður. Núna erum við því miður komin aftur í þá gamalkunnugu stöðu að fjalla um fjárlög, ekki í 3. umr. heldur í 2. umr., á kvöld- og næturfundum seint í desembermánuði með tilheyrandi mistökum, ófullnægjandi upplýsingum og ónógum undirbúningi. Það er algerlega óþolandi að forusta fjárlaganefndarinnar sé þannig þegar búið er að gera alveg sérstakar ráðstafanir til að hún hafi meiri tíma en nokkur fjárlaganefnd hefur haft til að koma málinu tímanlega til umfjöllunar í þinginu þannig að vanda megi umfjöllunina í þingsal og milli 2. og 3. umr. eins og kostur er.

Það er enn sérkennilegra að við skulum vera komin í þessa stöðu þegar núverandi ríkisstjórn hefur nánast engin önnur mál lagt fram á þessu haustþingi. Þetta fjárlagafrumvarp hefur nánast verið eina viðfangsefni haustþingsins og eigi að síður hefur ekki tekist að ljúka því tímanlega eða skammlaust.

Það sem er verst eru mistökin og þau óvönduðu vinnubrögð sem slíku sleifarlagi fylgja. Nú ætti haustþingi að ljúka í dag en sakir vinnubragðanna eru enn að koma fram hlutir sem vantar í frumvarpið, enn að koma fram upplýsingar um að gögn skorti, enn að koma fram sjónarmið í stjórnarmeirihlutanum um að frumvarpið eigi ekki að vera eins og það liggur fyrir heldur einhvern veginn allt öðruvísi og okkur er meira að segja sagt að frumvarpið muni taka gríðarlegum breytingum á milli 2. og 3. umr., tengt stöðugleikasamningunum trúi ég. Það eru breytingar sem koma ekki fram fyrr en þingið á að vera farið heim og umfjölluninni lokið. Svo dapurleg eru vinnubrögðin að í gær tilkynnti formaður fjárlaganefndar að mistök væru í frumvarpinu, fyrir utan allt hitt, sem sagt hrein og bein mistök í frumvarpinu upp á 1.192 millj. kr. Ef þingið hefði verið að fara heim í dag þá væri rétt á mörkunum að það hefði tekist að leiðrétta þau mistök. Þessi einu mistök, nú vitum við ekki hvað á eftir að koma í ljós við frekari umfjöllun málsins, leiða einfaldlega til þess að afkoma ríkissjóðs versnar sem því nemur. Menn lögðu af stað með rangar tölur þegar þeir settu sér markmið um fjárlagagerðina því að það var svo illa staðið að frumvarpsgerðinni.

Það er náttúrlega ekki hægt með þingmál nr. 1, fjárlög íslenska ríkisins, að á aðventunni komi í ljós prentvilla upp á 1,2 milljarða. Það er hvorki meira né minna en nærri 2 prómill af rekstri íslenska ríkisins, nærri því að vera 0,2% af 700 milljarða umsvifum ríkissjóðs. Ég trúi því og treysti að sú neyðarlega staða sem fjármálaráðherra og fjárlaganefnd eru í með þetta frumvarp verði til þess að menn endurskoði hvernig þeir standa að verki. Þetta er með engu móti boðlegt. Hvernig eigum við að geta treyst öðrum tölum í frumvarpinu og öðrum upplýsingum ef þar er prentvilla upp á 1.192 milljónir sem uppgötvaðist í gær? Það er ýmislegt í þessari vinnu sem gefur manni tilefni til að ætla að það kunni að vera fleira af þessu tagi, m.a. er enn þá verið að kalla eftir gögnum og það er enn þá verið að boða umfangsmiklar breytingartillögur. Stjórnarþingmenn eru enn þá að greina frá því í ræðustól að þeir styðji einhverjar breytingar á frumvarpinu eða hafi sjálfir hugmyndir um að það eigi ekki að ráðast í ákveðna hluti eða eigi að ráðast í ákveðna hluti, fyrir utan tugmilljarða breytingar, reikna ég með, a.m.k. milljarða breytingar á milli 2. og 3. umr. sem ekki eru fram komnar.

Þyngst af öllu þessu þykir mér að fjárlaganefnd skyldi síðast í fyrradag, hygg ég, afboða á síðustu stundu kvöldfund sem settur var með Landssambandi eldri borgara og Öryrkjabandalagi Íslands. Hvers vegna? Vegna þess að forusta fjárlaganefndar þurfti að láta tvö ráðuneyti vinna fyrir sig gögn um ákvarðanir í lífeyrismálum aldraðra og öryrkja. Hvað segir þetta okkur? Það segir okkur að forusta fjárlaganefndar taldi sig ekki hafa í höndunum fullnægjandi gögn, fullnægjandi talnalegar upplýsingar, fullnægjandi samanburð um lífeyriskjör fyrr og nú en hafði engu að síður tekið ákvörðun um kjör tugþúsunda manna á þeim gögnum sem hún áður hafði og taldi augljóslega ekki næg til að halda fund í nefndinni. Ef svona er að verki staðið er skiljanlegt að frumvarpið kalli á þau viðbrögð sem það hefur vakið í samfélaginu varðandi mjög marga þætti, ekki síst fyrir það hvernig farið var með Landspítalann og Ríkisútvarpið, lykilstofnanir í samfélaginu, en ekki síður lífeyriskjör fyrrnefndra hópa.

Það verður enn fremur að gera alvarlegar athugasemdir við með hvaða hætti hefur verið haldið utan um vinnuna af hálfu forustu nefndarinnar. Það er satt að segja ekki boðlegt að formenn þingnefnda séu að rífast um það við landssamtök lífeyrisþega hvernig kjör lífeyrisþeganna eru. Sá veit það náttúrlega best sjálfur er eldurinn á brennur og enginn bragur að því að verið sé að rengja það sem slík samtök setja fram gagnvart þinginu.

Enn síður er hægt að sitja undir þeirri meðferð án þess að mótmæla henni sem forstjóri Landspítalans þurfti að sæta hjá nefndinni. Talað var um andlegt ofbeldi þegar trúfastir embættismenn íslenska ríkisins, sem falið hefur verið ábyrgðarmikið hlutverk um að gæta að einhverri mikilvægustu stofnun samfélagsins, Landspítalanum, og rekstri hennar, komu fyrir þingnefnd og greindu eins vel og þeir gátu frá því hvaða þarfir hefðu með fyrirliggjandi frumvarpi verið uppfylltar og hverjar ekki. Þá þurftu þeir að sæta slíku umtali. Virðulegur forseti. Þetta þarf ekki að vera svona.

Fjárlagafrumvarp getur verið umdeilt, alveg sama hvaða ríkisstjórn leggur það fram. Það geta verið ýmis sjónarmið og ólíkar skoðanir á því. Fjárlaganefnd á að virða þær skoðanir. Menn geta haft aðrar skoðanir og þá lýsa þeir þeim bara. En slík skilaboð til gesta Alþingis eru beinlínis hættuleg vegna þess að þau letja menn í að greina þinginu frá því hvað þurfi að bæta, hvar sé mistök að finna í frumvarpinu og hvað geti bitnað á borgurum. Skilaboðin eru augljós. Því er illa tekið ef ábendingar koma um það sem betur megi fara. Það er ógn við hina þinglegu meðferð málsins vegna þess að í lýðræðissamfélagi okkar er undirstaðan fyrir þinglegri meðferð fjárlagafrumvarps að fjármálaráðherra leggi það fram á fyrsta degi þings og þjóðinni sé gerð grein fyrir frumvarpinu. Eftir þann tíma eiga allir að geta komið á framfæri athugasemdum og ábendingum um það sem betur má fara, enda vita allir að fjölmargt má betur fara.

Meiri hlutanum í fjárlaganefnd fundust ein 300 atriði í frumvarpinu mega betur fara. Hann flutti sjálfur 300 breytingartillögur.

Það er mikilvægt að þetta verklag, ef verklag skyldi kalla, sé endurskoðað um leið og menn reyna að koma í veg fyrir að svona alvarleg mistök verði aftur. Ég held að það megi heita einsdæmi að prentvilla upp á 1,2 milljarða finnist í fjárlögum í desember [Hlátur í þingsal.] og sömuleiðis þegar menn taka á tímaþættinum í málinu.

Það er sem betur fer til meðhöndlunar í þinginu frumvarp um opinber fjármál. Það breytir auðvitað að verulegu leyti stöðu fjárlaganefndar og færir að talsverðu leyti vinnslu mála meira til Stjórnarráðsins, í ráðuneytin og til fagfólks. Sumir hafa haft efasemdir um það en við skulum vera bjartsýn á að það verklag geti skilað okkur framförum.

Það er líka mikilvægt að við reynum að tileinka okkur að vinna fjárlögin ekki að mestu leyti um þessar einstöku breytingartillögur, eins og þær sem við erum að fjalla um hér við 2. umr., heldur um hina stóru ramma, áætlanir til lengri tíma, um afkomu ríkissjóðs frekar en einstakar litlar fjárveitingar hér og þar.

Það sem veldur ákveðnum áhyggjum þegar við horfum yfir þróun ríkisfjármálanna á þessu kjörtímabili er sá takmarkaði árangur sem náðst hefur í ríkisrekstrinum þrátt fyrir að við höfum búið við mikinn hagvöxt um langt árabil, allt frá því snemma á síðasta kjörtímabili, sem skilar auðvitað verulega auknum tekjum til ríkissjóðs. Þrátt fyrir það erum við jafnframt með til umfjöllunar í þinginu frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015 og þar er niðurstaðan satt að segja ekki björguleg. Þrátt fyrir að hráefnaverð sé í lágmarki á heimsmörkuðum, sérstaklega olíuverð sem kemur sér vel fyrir íslenskan þjóðarhag, þrátt fyrir að aflagæftir séu góðar, verð á fiskmörkuðum hátt og ýmislegt í ytra umhverfinu sé okkur flestallt hagfellt þá væri halli á ríkissjóði á yfirstandandi ári ef ekki væri verið að taka gríðarlega mikinn arð út úr Landsbankanum — það væri halli á rekstrinum sjálfum ef ekki væri verið að taka 26 milljarða út úr Landsbankanum. Það verður að vera okkur öllum umhugsunarefni. Við áttum að læra það í hruninu að á tímum eins og núna, þegar allir helstu þættir sem hafa áhrif á það hvort vel gengur eða illa árar í okkar samfélagi eru hagstæðir, ýmiss konar ytri aðstæður, er einmitt nauðsynlegt fyrir okkur að vera með afgang, að leggja fyrir í hlöðu, að eiga eitthvað til hinna áranna sem verða mögur. Hagstæð ytri skilyrði koma og þau fara. Ef við sýnum ekki fyrirhyggju og ráðdeildarsemi þegar vel stendur á eins og nú þá getur það bitnað harkalega á okkur þegar aðstæður verða óhagstæðar.

Hvað skýrir að á síðasta kjörtímabili, þegar landsframleiðsla var umtalsvert minni, var reksturinn þegar kominn í núll en afgangurinn hefur ekkert aukist allt þetta kjörtímabil? Það skýrist af því að ríkisstjórnin hefur verið að lækka skatta á efnamesta fólkið í landinu og síðast en ekki síst á útgerðina sem má helst við skattbyrðinni. Það er mikill vandi fyrir stjórnmálin og fyrir lýðræðið ef menn telja það vera líklegra til vinsælda í næstu kosningum að fá atbeina áhrifaafla í samfélaginu og lækka fremur skatta á þá sem helst geta borgað frekar en leggja til hliðar til mögru áranna. Hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða. Það verður enn sárgrætilegra þegar hér stendur upp hver stjórnarþingmaðurinn á fætur öðrum og segist gjarnan vilja verja meiri fjármunum til brýnna samfélagsmála en hann hafi þá ekki tiltæka, eins og til aldraðra og öryrkja, til Landspítalans og fjölmargra annarra málefna. Hvers vegna hefur stjórnarmeirihlutinn þá ekki tiltæka? Það er af sömu ástæðu. Hann hefur fellt niður eða ekki framlengt skatta sem skiluðu ríkissjóði Íslands verulega miklum tekjum og hefðu getað nýst til að gera þá góðu hluti fyrir aldraða og öryrkja og fyrir Landspítalann sem stjórnarþingmennirnir segjast vilja gera en gera ekki og til að leggja fyrir til mögru áranna.

Auðlegðarskatturinn er eitt gott dæmi, skattur sem settur var á til jafnlengdar við gjaldeyrishöftin og framlengdur jafnan eins og gjaldeyrishöftin. En núverandi stjórnarmeirihluti kaus að framlengja ekki þó að höftin hefðu verið framlengd. Þar er um að ræða tekjur sem komu til ríkissjóðs frá um 5 þús. ríkustu heimilunum í landinu.

Virðulegur forseti. Ég minni á að það er alþjóðlegt pólitískt vandamál að auður hinna allra ríkustu í löndunum er að aukast ár frá ári og misskiptingin að vaxa ár frá ári og öflugustu leiðirnar við því að draga úr þeirri hættu að 1% ríkasta fólksins sogi til sín allar eignirnar smátt og smátt með tímanum er einmitt að skattleggja þær sömu eignir og ekkert er eðlilegra eftir þau gríðarlegu áföll sem hér hafa dunið yfir en að einmitt þeir sem best standa leggi sérstaklega af mörkum meðan við erum að komast út úr vandanum, meðan við erum að brjótast út úr gjaldeyrishöftunum og meðan við erum að vinna á skuldunum og byggja upp varaforða til að eiga næst þegar við þurfum á því að halda vegna þess að þannig og aðeins þannig getum við forðað því að við þurfum nokkru sinni aftur að ráðast í jafn heiftarlegan niðurskurð og nauðsynlegt var að gera eftir hrunið 2008. Þar varð að ráðast í þann heiftarlega niðurskurð vegna þess að það var ekki í neina varasjóði að sækja. Af því þurfum við að læra.

Eitt af því sem við þurfum að hafa auga á í þessu samhengi, og ég beindi fyrirspurn til fjármálaráðherra nýverið um, er það sem kallað er því tæknilega nafni sveifluleiðréttur frumjöfnuður, hagsveifluleiðréttur frumjöfnuður. Það sýnir okkur í raun og veru hvernig rekstur ríkissjóðs er að þróast frá ári til árs þegar litið er fram hjá hagsveiflunni og litið er fram hjá góðæristekjunum. Það er ánægjulegt að yfir tíu ára tímabil er hann jákvæður um 2–3%. Við sjáum ekki hættumerki um að sveifluleiðréttur frumjöfnuður sé að verða neikvæður, a.m.k. ekki enn en auðvitað gætu óvænt áföll á næsta ári eða þarnæsta snarlega breytt því. Það var einmitt eitt af sjúkdómseinkennunum hér fyrir hrun, þegar menn töldu góðærið vera orðið svo botnlaust að það mætti ganga endalaust á ríkissjóð og afsala honum tekjum og létta sköttum af ýmsum forréttindahópum, þá varð þessi jöfnuður neikvæður. Ég hvet þingmenn til að kynna sér svar fjármálaráðherra og hafa augun á þessum bolta því að það skiptir okkur svo gríðarlega miklu máli að hinn undirliggjandi rekstur ríkissjóðs sé í lagi og við látum ekki glepjast af því þó að enn ein bólan komi og lækkum skatta enn frekar en orðið er þannig að ríkissjóður hafi enga varasjóði af að taka og sé að auki kominn í neikvæðan undirliggjandi rekstur.

Annar tekjustofn sem er algerlega óforsvaranlegt að menn hafi látið frá sér er lækkunin á veiðigjöldum, einkum og sér í lagi þegar þeir koma hér hver á fætur öðrum og segja okkur að þeir vildu svo gjarnan gera meira og betur fyrir hinn og þennan en þeir hafi bara ekki fjármuni til þess, þeir geti ekki gert það. Það er auðvitað ekkert annað en hróplegt að þegar afkoman af útgerðinni er eins og hún hefur aldrei verið fyrr í lýðveldissögunni ár eftir ár og þegar hún er í fullum færum til að skila miklum hagnaði, arði til eigenda sinna og umtalsverðum veiðigjöldum í ríkissjóð þá skuli menn samt ákveða að lækka þau. Þeir tóku samt jákvæða ákvörðun um að lækka sérstaklega það sem þessi hópur var að greiða í auðlindasjóð okkar Íslendinga, ríkissjóð. Það er ekki hægt að taka alvarlega þá sem hafa greitt atkvæði með því að lækka framlag útgerðarinnar í ríkissjóð en segjast síðan ekki hafa peninga til að ráðast í meiri úrbætur á kjörum stórra hópa í samfélaginu eða á mikilvægum heilbrigðisstofnunum eða öðru slíku því að pólitík snýst um forgangsröðun. Það er alveg ljóst fyrir hverja er forgangsraðað. Það er forgangsraðað fyrir 5 þús. efnuðustu heimilin í landinu og það er forgangsraðað fyrir útgerðarmennina. En Landspítalinn, aldraðir og öryrkjar og ýmislegt annað liggur eftir.

Virðulegur forseti. Núna erum við sem betur fer á tímum þar sem hægt er að forgangsraða, þökk sé þrotlausu uppbyggingarstarfi á síðasta kjörtímabili, ekki bara þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat heldur auðvitað líka og ekki síst fyrirtækjanna í landinu og fólksins þá hefur með ýmsum fjárfestingum, með efnahagssamstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, með ýmsum fjárfestingum í nýjum verksmiðjum sem lagður var grunnur að á síðasta kjörtímabili tekist að stækka kökuna svo mikið að hægt er, ef vilji væri fyrir hendi, að forgangsraða með þessum hætti. Það er auðvitað ekki of seint. Ég hvet þess vegna stjórnarþingmenn til að skoða hug sinn vel. Ég vil trúa því að þeim hafi mörgum orðið ljóst við umfjöllun um þetta frumvarp undanfarna daga og vikur að alvarlegir meinbugir eru á frumvarpinu sem lúta ekki síst að þessum atriðum, öldruðum og öryrkjum, Landspítalanum, ýmsum þáttum raunar líka enn þá í menntakerfinu og öðrum þáttum heilbrigðiskerfisins sem mikilvægt er að bæta úr. Það er einfaldlega þannig að það er hægt að bæta úr þeim ef menn eru tilbúnir til að taka tekjur inn á móti þeim útgjöldum, annaðhvort í gegnum veiðigjöldin eða í gegnum auðlegðarskattinn.

Ef það er hjartans sannfæring manna að það eigi að bæta kjör aldraðra og öryrkja meira en gert er ráð fyrir í frumvarpinu og með sama hætti og annarra í samfélaginu þá er ekkert að vanbúnaði að gera það. Þarf bara að flytja hér breytingartillögur við annaðhvort 2. umr. um fjárlög ellegar við 3. umr. um fjáraukann eða fjárlögin. Tækifærin eru þarna. Það eru þingflokksfundir í næstu viku, bæði hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Það er ekki hægt að taka það alvarlega ef menn ætla svo að koma aftur og segja: Nei, við viljum ekki hafa sömu tekjuöflun í ríkissjóði eins og var þegar við komum að. Við viljum létta sköttum af auðmönnum og útgerðinni en samt mundum við gjarnan vilja hækka aldraða og öryrkja frá sama tíma og aðrir — vegna þess að ef maður ákveður að lækka veiðigjöldin og auðlegðarskattinn vitandi að það þýði að maður geti ekki hækkað kaup aldraðra og öryrkja eins og annarra í samfélaginu frá sama tíma og maður veit að það þýðir að það verður ekki haldið í horfinu á Landspítalanum, það verður ekki hægt að setja inn fjárveitingar fyrir aukinni þjónustuþörf vegna fleiri aldraðra í landinu, ekki til nauðsynlegs viðhalds á spítalanum o.s.frv., þá er engin meining með því að segja að menn vilji það ekki ef þeir eru ekki tilbúnir til að afla teknanna sem til þarf.

Á tekjuhliðinni er sömuleiðis ýmislegt smærra sem vert er að gera athugasemdir við. Það er full ástæða til að gagnrýna hvaða hópar hafa notið breytinga í tekjuskattinum því að það eru sannarlega ekki þeir lægst launuðu og þeir sem mest þurfa á að halda. Það er líka grátlegt, vil ég leyfa mér að segja, að sjá einstakar aðrar tekjuaflanir eða skort á þeim. Eitt sem vert er að nefna eru tekjur okkar af ferðaþjónustu. Það var enn ein ákvörðun stjórnarmeirihlutans þegar hann tók við að afþakka tekjur. Skrýtnasti hópurinn sem stjórnarþingmennirnir ákváðu að afþakka tekjur frá voru erlendir ferðamenn. Nú hefur erlendum ferðamönnum fjölgað sem aldrei fyrr; 1,3 milljónir ferðamanna eru tölur sem við erum farin að sjá, sem við hefðum fyrir ekkert mjög mörgum árum aldrei trúað að væru svo skammt undan. Það er ekki síst að þakka því uppbyggingarstarfi sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli. En stjórnarþingmennirnir ákváðu að veita öllum þessum mikla straumi erlendra ferðamanna sérstakan afslátt frá virðisaukaskatti, að það væri sérstök ástæða til þess að þeir borguðu lægri virðisaukaskatt hér á landi en við Íslendingar gerum almennt. Er þó vandi okkar síst sá að við þurfum að fjölga ferðamönnum, heldur þvert á móti einmitt sá að við þurfum að auka tekjur okkar af hverjum og einum ferðamanni. Þess vegna er full ástæða til þess að auka nokkuð við gjaldtöku ríkissjóðs, sameiginlegs sjóðs okkar, af þessum ferðamönnum. En látum vera, þetta var ein af ákvörðununum enn sem hefur orðið til þess að stjórnarþingmennirnir eiga engan pening fyrir þau góðu málefni sem þeir segjast þó styðja. Það átti að minnsta kosti að láta ferðamennina borga þann kostnað sem af veru þeirra hér leiðir, leggja á þá sérstök gjöld sem gætu staðið undir því. Það var heldur ekki mjög flókið mál. Rétt eins og hækkunin á virðisaukaskatti sem var býsna einföld framkvæmd, virðisaukaskattskerfið gott og öflugt tekjuöflunarkerfi, þá hefur það legið fyrir allt þetta kjörtímabil að vildu menn ekki fara virðisaukaskattsleiðina væri önnur tekjuöflunarleið sem hægt væri að fara, sem er gistináttagjaldið. Hann er óhæfilega lágur, hann er 100 kr. hygg ég á hverja gista nótt. Hann mætti hæglega með einni ákvörðun margfalda og skila verulegum tekjum í ríkissjóð til að mæta þeim kostnaði sem af þessu hlýst og skapa með því líka svigrúm til að ráðast í þau góðu verkefni sem stjórnarþingmennirnir segjast vilja fara í en fara ekki í. Það var heldur ekki gert, heldur var farið í einhvern algerlega óskiljanlegan leiðangur sem ég held að hafi heitið náttúrupassi og er nú þegar hillir undir lok kjörtímabilsins að engu orðinn. Við sitjum upp með ekkert nema kostnaðinn og engar tekjur á móti.

Það er fyrst og fremst varðandi tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins sem ástæða er til að gagnrýna meiri hlutann harkalega. Þar hafa sannarlega verið margvísleg færi sem hefðu getað gert það að verkum að stjórnarþingmenn hefðu getað haft sóma af því að hækka kaup aldraðra og öryrkja frá sama tíma og okkar sjálfra og láta Landspítalann hafa fé fyrir nauðsynlegu viðhaldi og vegna fjölgunar sjúklinga svo aðeins tvö augljós dæmi séu nefnd.

Þegar kemur að tekjunum í frumvarpinu fyrir næsta ár var athyglisvert að heyra ræðu formanns efnahags- og viðskiptanefndar fyrr í dag. Þá setti mann eiginlega alveg hljóðan því að það voru skemmtilegar hugmyndir í þeirri ágætu ræðu um ýmsar tekjur sem afla mætti. En formaður efnahags- og viðskiptanefndar, oddviti Framsóknarflokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna og þungavigtarmaður í þingflokki Framsóknarflokksins, hlýtur að hafa unnið slíkum hugmyndum brautargengi í aðdraganda þessa frumvarps og þeirrar afgreiðslu sem farið verður í á því í næstu viku. Það dúkkar ekki upp einhvers konar hugmyndabanki á síðasta degi þingsins um 10 sinnum 5 milljarða hér eða 5 milljarða þar eða hvað þetta var allt saman. Látum það svo sem vera, það kryddar alla vega umræðuna þó að það sé kannski erfitt að taka það alvarlega, en eitt verður þó að taka alvarlega og það er andstaða formanns efnahags- og viðskiptanefndar og að ég hélt Framsóknarflokksins alls við það að selja 30% hlut í Landsbankanum.

Þá spyr ég aftur um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, virðulegi forseti. Hvernig er þetta? Ætlar Framsóknarflokkurinn að greiða atkvæði gegn sölu á 30% hlut Landsbankans í fjárlagafrumvarpinu eða beita sér fyrir því að heimildin verði afnumin eða ætlar hann að afgreiða fjárlögin og hætta svo við að selja eignarhlutinn? Hvernig er þetta eiginlega hugsað? Var líka einhver prentvilla þarna? Er það þannig að formaður efnahags- og viðskiptanefndar og Framsóknarflokkurinn eru á móti því að selja 30% hlut í Landsbankanum en það verður bara samt gert? Er Framsóknarflokkurinn eins konar hanskahólf hjá Sjálfstæðisflokknum? Skiptir stefna hans í þessu efni engu máli? Er hægt að treysta því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi sitt fram og geri það sem honum sýnist og að þessir peningar skili sér og það verði jákvæð niðurstaða af fjárlögunum á næsta ári vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn fái að ráða þessu og formaður efnahags- og viðskiptanefndar láti bara ganga fram hjá sér og virða viðhorf sín að vettugi í þessu stóra málefni? Það er að minnsta kosti mjög sérstakt svo ekki sé meira sagt.

Það er ýmislegt fleira á útgjaldahliðinni og ekki síst um eignasöluna sem vert er að draga fram. Ég vil hrósa formanni efnahags- og viðskiptanefndar fyrir að hann sem er töluglöggur maður og vel að sér um hagstærðir skyldi draga fram í ræðu sinni hvað er svona glórulaust við hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um að selja 30% hlut í Landsbankanum. Hann dró það einfaldlega fram að það er vondur bisness af því að formaður efnahags- og viðskiptanefndar er hvað sem öðru líður góður bisnessmaður. Það er vondur bisness af því að ríkissjóður tapar (Forseti hringir.) 4–5 milljörðum á ári af því. Ríkissjóður fær miklu meiri arð en (Forseti hringir.) hann léttir af sér vöxtum með því að selja hlutinn og borga inn á skuldir.

Virðulegi forseti. Ég held áfram í næstu ræðu minni.