145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[15:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég mundi skilgreina vaxtagjöld sem part af undirliggjandi rekstri ríkisins. Einskiptisgreiðsla, ef há væri, sem tengdist stöðugleikaframlögum, gæti höggvið nokkurt skarð í þann múr sem við þurfum að halda uppi með greiðslum núna. Það mætti segja að það yrði svolítill bati til lengri tíma. Hinu er ég alveg sammála, ég tel að ríkisstjórnin sé að gera veruleg mistök með því að hafa þessi lausatök á fjármálunum. Það kom náttúrlega í ljós, sérstaklega allra síðustu daga, að heildarmyndin er ekkert ljós hjá þeim og þeim hefur meira að segja ekki tekist að skýra það út fyrir hinni ágætu forustukonu í fjárlaganefnd hvað þeir telja raunverulega að þurfi að gera til þess að niðurstaðan sé í gadda slegin.

Við þær aðstæður sem eru núna er með ólíkindum að við séum rétt við núllið. Hér er hagvöxtur við 4,5%. Atvinnuleysið er komið niður í 2,9%. Undirstöður í atvinnulífinu eru allar mjög góðar. Þar hefur ekki borið nokkurn skugga á nema hugsanlega tregðu við að selja makríl sem tókst þó að koma af með 20–30% lægra verði, en á móti komu hækkanir á öðrum tegundum. Hér er allt í skínandi byr. Við slíkar aðstæður sem maður getur ekki búist við að verði langvarandi þarf ekki mikið að gerast til að við verðum komin niður í mínus. Það þyrfti til dæmis ekki annað en að einhvers konar atburðarás í fjarlægum heimsálfum leiddi til breytinga á olíuverði sem yrði óhagstætt Íslandi aftur, þá mundi þetta allt fara úr skorðum.

Ég tel að stjórnvöld sýni háskalegt gáleysi að því er varðar að koma ríkisfjármálunum í skjól. Eins og ég hef rakið hérna hafa menn bara ekki beinin (Forseti hringir.) sem við höfðum til þess að takast á við útgjaldaþrýstinginn og ekki heldur til þess (Forseti hringir.) að takast á við tekjuöflun svo sæmileg væri.