145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins út af þessu síðasta sem við vorum að ræða, ég og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir, þá erum við mjög langt á eftir. Bretarnir voru einmitt byrjaðir á þessu og voru komnir með stór verkefni í því að auka aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum ríkisins í kringum aldamótin. Þeir byrjuðu á því fyrir 15 árum og hafa tekið stórstíg skref fram á við á meðan við erum að reyna að fikra okkur áfram.

Þegar ég kom inn í fjármálaráðuneytið fórum við strax af stað með að setja hóp af sérfræðingum í að vinna tillögur um það með hvaða hætti við gætum opnað á fjárhagsupplýsingar ríkisins í auknum mæli. Þessi hópur þurfti ekki að vinna nema í, ég man ekki hvort það voru tveir eða þrír mánuðir, og gat skilað okkur skýrslu og tekið strax skref í þessa veru með því að opna ákveðin gagnasöfn. Það voru ákveðnar upplýsingar sem hægt var að opna strax. Því miður hefur það stoppað með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar af því að það er einhvern veginn eins og svona lagað þurfi að vera sérstakt áhugamál til að menn fari í það. Þess vegna ætla ég eftir áramót að leggja fram að nýju þingsályktunartillögu um þetta mál, þ.e. að stefnumörkun verði gerð um með hvaða hætti við ætlum að opna fyrir þessar fjárhagsupplýsingar. Ég lagði slíkt mál fram á síðasta þingi í samstarfi við nokkra þingmenn og ég ætla að gera á því nokkrar breytingar og leggja fram að nýju.

Ég held nefnilega að þetta sé liður í því að auka traust á milli þess sem við kjörnir fulltrúar erum að gera og hvernig við ráðstöfum skattfé almennings, og almennings sjálfs, sem vill auðvitað vita hvernig við gerum það, hann vill að minnsta kosti vita að hann hafi aðgang að þessum upplýsingum. Starfshópurinn sem skilaði skýrslu til mín á vordögum árið 2013 lagði áherslu á að þetta yrði á hrágögnum, eins og hv. þingmaður lagði til, ég ætla ekki að fara með skammstafanirnar sem hv. þingmaður fór með áðan, XML-skjöl og annað slíkt, og þannig færu bara hráar töflur út vegna þess að það getur líka orðið ákveðið vantraust gagnvart stjórnvöldum ef við förum að matreiða upplýsingarnar.

Í dag hafa sum fyrirtæki og fjölmiðlar fólk á sínum snærum sem er vel læst á þessi gögn og getur þýtt þau yfir á skiljanlegt lesmál. Ég held að það skipti miklu máli vegna þess að ef ríkið fer að matreiða gögnin eitthvað getur það skapað tortryggni gagnvart því sem verið er að matreiða og hvað er valið til að sýna okkur og svo framvegis.

Ef þetta er bara í hrágögnum á netinu verður enginn hræddur um að verið sé að búa til eitthvað eða sjóða saman einhverjar tölur eða mynd af einhverjum veruleika sem fólk hefur ekki trú á að sé til.

Ég hef boðað það hér að þessi tillaga muni koma fram að nýju eftir áramót af því að það er löngu tímabært. Ég held að það sé best að ráðherrar fái mjög skýr skilaboð frá þinginu um hvað við viljum sjá og að við viljum að fjárhagsgögn hins opinbera séu algjörlega opin. Þegar menn eru komnir með þau skýru skilaboð héðan vil ég að þeir búi til einhverja áætlun um í hvaða skrefum það verði gert og síðan verði því fylgt óháð því hvaða flokkur situr í ráðuneytunum hverju sinni.

Aðeins að efnisatriðum, ekki bara umgjörð fjármála hins opinbera heldur einnig að einstaka atriðum í þessu máli. Ég fór í fyrri ræðu minni töluvert yfir málefni eldri borgara og öryrkja og ég verð að ítreka vonbrigði mín varðandi það að okkur hafi ekki gefin nein vísbending um að menn ætli að mæta kröfu þessara hópa. Krafa þeirra um kjarabætur er ekki sprottin úr einhverri heimtufrekju eða úr tómarúmi heldur er hún sprottin út úr því að þarna eru stórir hópar og þúsundir manna sem lifa á tekjum eða fá laun sem eru í kringum 200 þús. kr., plús/mínus, nokkrir tugir þúsunda.

Einstaklingur í sambúð er með grunnlífeyri upp á 170 þús. kr. Sá sem býr hins vegar einn fær heilar 192 þús. kr. Þar er ég að tala um nettótölur, það sem maður fær útborgað. Það sér það bara hver heilvita maður að það er ekki hægt að lifa af því. Ef maður hefur síðan unnið sér inn einhvern lífeyri skerðist hann og maður endar þá kannski með nettóniðurstöðu upp á 217 þús. kr., 20 þús. kr., 30 þús. kr. Þúsundir Íslendinga þurfa að lifa á þessum tekjum.

Mér finnst að við í þinginu eigum að hætta allri skotgrafaumræðu um það hver gerði mest á hverjum tíma eða ekki. Við getum karpað um það endalaust. Það sem við eigum að horfa á eru þessar tölur, þessar staðreyndir, og við eigum að svara þeirri spurningu, horfast í augu við okkur sjálf og svara þeirri spurningu: Teljum við í alvöru að einhver geti lifað af þessu og haft það gott? Ég veit að svarið við þeirri spurningu verður nei.

Þegar við öll hér inni verðum búin að svara þeirri spurningu neitandi eigum við að setjast niður saman og teikna áætlun þverpólitískt um með hvaða hætti við ætlum að bæta úr þessu og í hvaða skrefum, vegna þess að svona gengur þetta ekki áfram. Ég vona að stjórnarflokkarnir sjái að sér í þessu efni og taki ákvörðun um að fara með okkur í það verkefni að reyna að hækka laun þessara hópa, öryrkja og eldri borgara. Þetta er annars vegar fólk sem byggt hefur upp það land sem við höfum nú tekið við stjórninni á og hins vegar þeir sem ekki hafa val um að fara út á vinnumarkaðinn út af langvinnum veikindum eða slysum eða af öðrum ástæðum. Við berum þess vegna gríðarlega mikla ábyrgð og við getum ekki skilið þessa hópa eftir. Ég fór vel yfir það í fyrstu ræðu minni og vildi hnykkja á því hér.

Mig langar líka að nefna heilbrigðismálin aftur. Ástæðan er sú að mikið hefur verið talað um að hér sé búið að setja nóg til heilbrigðismála, að við séum búin að setja svo mikla fjármuni í þau mál á undanförnum árum að það sé bara — ég man ekki hvort það var kallað heimsmet að þessu sinni af stjórnarliðum, en eitthvert met var það. En við erum ósammála því og þess vegna höfum við stjórnarandstöðuflokkarnir lagt til að framlög til heilbrigðismála verði aukin upp á að mig minnir 2,5 milljarða. Sú tala er ekki gripin úr lausu lofti. Það er tala sem kemur frá spítalanum sjálfum þar sem fram hefur komið í máli forsvarsmanna hans að þetta sé það sem þeir þurfa til þess að reyna að halda í horfinu. Eða hvort það eru 2,8 milljarðar kr. sem þarf þar.

Því hefur verið mætt með þeim orðum að ef við létum þá hafa þá tæpu 3 milljarða sem spítalinn þarf yrði það ekki til þess að þjónustan á spítalanum yrði betri og að menn gætu þá haldið í horfinu og sinnt fleiri sjúklingum eða neitt slíkt. Nei. Viðbrögðin voru þau, að minnsta kosti af hálfu hv. þm. Karls Garðarssonar, að ef við gerðum það þá mundu þeir bara biðja um aðra 3 milljarða og svo enn aðra 3 milljarða og enn aðra 3 milljarða þannig að það væri eins og við værum að rétta peninga til — ég veit það ekki, einhverrar heimtufrekju.

Mér finnst það alveg sérlega undarleg nálgun á málið vegna þess að þarna er fagfólkið okkar í greininni sjálfri að segja okkur upp á krónu hvað það þarf bara til að halda í horfinu og því er mætt með þeim viðhorfum að það taki því nú ekki að láta þau fá eitthvað af þessum fjármunum af því að þá fari þau bara að biðja um meira og meira. Það er ekki það sem þetta snýst um heldur það að ef við ætlum að reka hér gott heilbrigðiskerfi þá þarf einfaldlega þessa fjármuni. Það er bara staðreynd.

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að nefna eitt þessu tengt, athyglisverða frétt nýverið í Ríkisútvarpinu þar sem fram kom að útgjöld til heilbrigðismála á Íslandi sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafi lækkað á undanförnum árum, sem og raunútgjöld til heilbrigðismála á mann. Þegar menn horfa alltaf í krónutölurnar er það einfaldlega ekki nóg vegna þess að menn þurfa að horfa á stærri mynd í þessu efni.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, setti fram þessar tölur. Hann segir að ef við berum okkur saman við OECD-ríkin séum við í 15. sæti í raunútgjöldum, en sem hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu séum við komin í 23. sæti. Hann segir líka að við höfum verið mun ofar á listanum í þessum samanburði á árunum fyrir hrun og líka á fyrstu árunum eftir hrun. Þarna eru því tölur sem við eigum að horfa til.

Við getum alltaf sagt hvert við annað: Heyrðu ég setti meira en þú. Eða: Við erum að slá heimsmet í einhverjum framlögum. En þegar tölurnar tala sínu máli verðum við að hlusta. Við verðum að horfa á þær og horfast í augu við þennan veruleika og reyna að takast á við hann í staðinn fyrir að vera endalaust að slást innbyrðis.

Það eru fleiri mál sem mig langar að nefna hér. Varðandi heilbrigðismálin er það orðið akút mál að við reynum að setja upp einhvers konar plan um með hvaða hætti við aukum fjármuni til þess málaflokks.

Mig langar líka að nefna unga fólkið, ég náði því ekki í fyrri ræðu minni. Það sem veldur mér alveg gríðarlegum vonbrigðum í fjárlagafrumvarpinu, og því er ekki heldur mætt í breytingartillögunum, er lækkunin á vaxtabótum og barnabótum. Okkur er sagt að ástæðan fyrir lækkun á vaxtabótum og barnabótum sé sú að við skiljum bara ekki kerfið, en nú sé fólk farið að hafa það svo miklu betra ef maður skoðar eignastöðuna og tekjustöðuna.

En þetta er auðvitað ekki svona einfalt heldur er ástæðan fyrir því að bæturnar lækka sem hlutfall af innkomu og tekjum barnafólks sú að menn hafa ekki látið tekjumörkin og eignamörkin fylgja neinni þróun eða neinum veruleika í samfélagi okkar, menn hafa bara fryst það. Og þar með eru vaxtabæturnar og barnabæturnar hægt og rólega að detta út sem stuðningur við þá sem skuldsettastir eru, sem er unga fólkið.

Við höfum viljað berjast fyrir því að bæturnar séu áfram inni vegna þess að — og það er heldur ekki hægt að segja að menn hafi farið hér í skuldaniðurfellingar og þar af leiðandi eigi ekki að horfa til þessa hóps, að menn geti bara prísað sig sæla og hætt að nota vaxtabætur. Vaxtabætur eru bara allt annars eðlis. Vaxtabætur hafa verið tekjutengdar og eignatengdar og þannig hefur þeim verið beint til þeirra hópa sem eru með þyngstu byrðarnar hverju sinni.

Það er bara þannig með yngstu aldurshópana og ungu fjölskyldurnar í samfélagi okkar að þó að brúttótekjurnar séu ágætar millitekjur er það engu síður þannig að á þessum árum eru þessir hópar með gríðarlega þunga greiðslubyrði vegna þess að þá er nánast eingöngu verið að greiða vexti af húsnæðislánunum af því að þessar kynslóðir eru komnar hvað styst á veg með að greiða þau upp.

Sömu hópar sem eru líka með gríðarlegan kostnað af börnum. Ég tek nærtækt dæmi, af sjálfri mér. Ég greiði 60 þús. kr. á mánuði í leikskólagjöld. Það munar nú um minna. Ég er með tvö börn í leikskóla í Kópavogi. Það munar um það. Það er svo margt sem þyngir róðurinn hjá barnafólki.

Ég held að þarna ættu menn aðeins að endurhugsa stöðuna vegna þess að þetta getur þýtt að með þessari aðgerð þrengir beinlínis að kynslóðunum sem ala upp börnin. Menn ættu að endurhugsa þá nálgun. Ég hef mótmælt þessu og við teljum þetta ranga forgangsröðun varðandi barnabæturnar. Þá segja menn að við séum að tala fyrir því að efnafólk eigi að fara að fá barnabætur. Skerðingin á barnabótunum hefst við tekjur við 200 þús. kr. Menn eru á rangri braut varðandi stuðning til ungra fjölskyldna. Ef barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. þá fá nú ekki margir barnabæturnar óskertar.

Hvað eru barnabætur? Barnabætur eru stuðningur við barnafjölskyldur til þess að létta þeim róðurinn á því þunga tímabili sem ég var að nefna áðan. Er það ekki í þannig samfélagi sem við viljum búa? Við viljum hvetja til þess að fólk eignist börn. Við viljum hvetja til þess að hér verði einhver eðlileg mannfjöldaaukning eða fjölgun í samfélagi okkar. Í nágrannaríkjum okkar sjá menn fram á gríðarleg vandræði á næstunni vegna þess að þar hefur ekki fjölgað nægjanlega í samfélögunum. Það vantar beinlínis ungt fólk til þess að halda uppi því velferðarkerfi sem byggt hefur verið upp.

Við viljum ekki lenda í þeirri stöðu en við getum gert það ef við veikjum öll þau kerfi sem við höfum byggt upp til þess að styðja við barnafólkið okkar. Það að láta þessi tekju- og eignamörk ekki hækka þýðir að það getur orðið óaðlaðandi að eignast börn hér á landi, að ég nefni nú ekki fæðingarorlofið, rúsínuna í pylsuendanum í þessum kerfum, sem verið er markvisst að veikja og mun koma okkur í koll síðar.

Fæðingarorlofssjóð þurftum við að skerða á síðasta kjörtímabili í kjölfar hrunsins og ég verð að segja alveg eins og er og ætla að segja það hér að ég tel að við höfum gengið of langt í veikingu hans á sínum tíma. Menn geta breytt því en það hefur þessi ríkisstjórn ekki gert og við erum enn þá með tekjuviðmiðin allt of lág, þ.e. þakið er allt of lágt og fæðingarorlofið er of stutt.

Áður en sú ríkisstjórn fór frá höfðum við samþykkt frumvarp um lengingu fæðingarorlofsins í 12 mánuði. Það var dregið til baka af þessari ríkisstjórn. Þá hélt ég að ný ríkisstjórn mundi að minnsta kosti ætla að hækka þakið, en það var hækkað um 20 þús. kr. og síðan ekki söguna meir. Þessar 20 þús. kr. telja ekki neitt. Það veldur því að við erum með allt of lágar greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi og við erum með líka fæðingarorlof sem er hreinlega orðið of stutt vegna þess að bilið yfir í leikskólann er það langt.

Allt þetta getur lagst á eitt og orðið til þess að við lendum í sama vanda og nágrannalönd okkar hvað varðar eðlilega endurnýjun þjóðarinnar. Við þurfum að horfa til þess. Við getum ekki alltaf horft til svo skamms tíma eins og við höfum verið að gera heldur eigum við að horfa til lengri tíma í þessum efnum og átta okkur á því að ákvarðanir okkar núna hvað þessi mál varðar geta komið okkur í koll síðar.

Ég fer nú að brenna inni á tíma en mig langaði líka að tala hér um samgöngumálin. Ég tók þau aðeins fyrir í andsvörum við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon áðan vegna þess að ég hef alveg ofboðslegar áhyggjur af því að menn horfi hér til of skamms tíma þegar ákvarðanir eru teknar um að setja ekki aukna fjármuni í viðhald vega og setja ekki fjármagn í fjárfestingar í nýframkvæmdir í samgöngumálum vegna þess að við erum með alveg gríðarlegt álag á samgöngukerfið okkar vegna aukinnar komu ferðamanna.

Það getur þýtt miklu meiri kostnað fyrir okkur í náinni framtíð ef við gerum ekkert í málum núna. Það er líka öryggisatriði og ég tel að bættar samgöngur séu algjört lykilatriði í því að gera byggðir landsins sterkari, miklu mikilvægari en byggðaáætlun, miklu mikilvægari en allir vaxtarsamningar þessa heims, það eru góðar almennar samgöngubætur.

Að lokum eitt örstutt: (Forseti hringir.) Áhugaverð frumniðurstaða rannsóknar á áhrifum Héðinsfjarðarganga á samfélagið leiddi m.a. í ljós að sú samgöngubót hafi gríðarlega jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna.