145. löggjafarþing — 53. fundur,  12. des. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[17:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins um aðganginn að fjárhagsupplýsingum hins opinbera. Ég veit ekki hvort eða hvernig ríkið tekur þátt í slíkum samstarfsverkefnum. Ég held að það væri verðugt að spyrja að því og reyna að ýta við því að menn hugsanlega litu til þess að gera það.

Ég hef hins vegar spurt hvað hafi orðið um þá áætlun sem var lögð til í skýrslunni frá 2013 um að fara með frekari gögn út á netið og gera aðgengileg. Svörin þá voru að þetta væri allt í einhverjum farvegi. Það hefur ekki mikið gerst síðan og það sem er óþægilegt er að menn virðast hafa sópað þessu öllu inn í innanríkisráðuneyti og að þar sé verið að smíða stærra prógramm í upplýsingamálum. Þá tel ég að þetta verkefni sé svolítið að týnast þar. Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér og mögulega muni menn taka einhvern sprett í því, en ég held að þingsályktunartillaga sem ýtir við mönnum og þingið samþykkir vonandi um að auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum geti verið til góðs.

En hvar á ungt fólk að búa? Þetta er líklega stærsta spurning sem blasir við okkur núna, þetta er algjör lykilspurning. Við höfðum ekki til yngstu hópanna í samfélagi okkar í dag. Við gerum það ekki. Við gefum þeim ekki glæsta framtíðarsýn né gerum þeim lífið neitt sérstaklega auðvelt. Eins og hv. þingmaður nefndi, og það var málaflokkur sem ég komst ekki í, Lánasjóður íslenskra námsmanna, er það umræða sem við þurfum að fara vandlega í gegnum hér. Hvaða tilgangi viljum við að hann þjóni? Ungt fólk er hætt að sækja í hann. Ásóknin í hann er að minnka og sérstaklega á það við þá sem eru í námi erlendis. Síðan tel ég að við verðum að ráðast í alvöruuppbyggingu á leiguhúsnæði (Forseti hringir.) og leggja til margþættar aðgerðir til þess að auka framboð á leiguhúsnæði hér á markaðnum þannig að verðið lækki.