145. löggjafarþing — 54. fundur,  14. des. 2015.

bætur almannatrygginga og lægstu laun.

[10:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra þarf ekki að kenna mér neitt um það hvaða hætta steðjar að ungum mönnum sem hafa dottið út úr vinnu eða skóla. Í tíð síðustu ríkisstjórnar komum við á fót ótrúlega fjölbreyttum úrræðum fyrir þann hóp. Fyrsta verkefni ríkisstjórnar hæstv. ráðherra var að afnema öll þau úrræði. Hann er sjálfur búinn að standa fyrir því með félaga sínum menntamálaráðherra að loka framhaldsskólunum fyrir fólki yfir 25 ára aldri þegar um bóknám er að ræða og svona mætti lengi telja. Það er sérstakt úrlausnarefni. En það getur vel verið að hæstv. fjármálaráðherra haldi að hann sé eins og Jesú Kristur, geti veitt blindum sýn og fengið sjúka til að taka sæng sína og ganga, en ég held að það sé ekki á færi hans. Ég held að hann verði að horfast í augu við það að fólk er auðvitað öryrkjar heilsufars vegna og fólk er aldrað aldurs síns vegna. Hann er að afvegaleiða umræðuna með þessum ummælum.

Ég hlýt að spyrja á móti. Hefur hann tryggt sér meiri hluta í þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Er Ásmundur Friðriksson einn um það að vera búinn að skipta (Forseti hringir.) um skoðun? Ætla allir hinir stjórnarþingmennirnir að ganga svipugöngin (Forseti hringir.) og, sama hvernig hæstv. ráðherra snýr því, hlunnfara lífeyrisþega sem nemur 6,6 milljörðum á yfirstandandi (Forseti hringir.) ári og 5,3 á því næsta?